15. maí 2010

Af einum Farmal frá Öndólfsstöðum

Vart höfðu hrafnar vaknað í hreiðrum sínum i Reykjadal nyrðra á þessum morgni Hallvarðsmessu er tveir menn þar bjuggust til ferðar á jeppa sínum með vagni traustum. Ræst var dráttarvél er fyrst leit Reykjadal fyrir 54 árum, rauð að lit, forkunnarvel hirt í höndum tveggja kynslóða er þekktar eru um margar sóknir fyrir hirðusemi og búmennsku.

 

Ekki þurfti að knýja hina rauðu dráttarvél til gangs, þótt smátregðu hafi gætt í honum fyrir fáeinum dögum. Sú rauða vissi að vistaskipti stóðu fyrir dyrum og um stund tregaði hún þingeyskar góðsveitir. Hafði þó verið lofað góðri heimkomu handan við fjöll og heiðar.

 

Og félagarnir tveir héldu af stað í morgunskímunni. Þeir óku lengi, gegnum regn, slyddu og að hluta snjó á norðlenskum heiðum. Það létti og birti eftir því sem sunnar dró. Góð ár voru að baki þeirri rauðu, trú þjónusta við hógvært bændafólk á bænum með einu hljómmesta nafni sem íslenskir bæir eiga.

 

Sú rauða hafði sjálf verið smíðuð saman niðri í Neuss þegar þjóðríkið þýska var að ná sér eftir heljarárin mögu: Saklaust verkafólkið naut þess nú að nýju að gera veröldinni það gagn sem vænst var: að smíða góðan traktor til þess að sveitirnar mættu rækta meira korn og létta oki af bökum búandfólks.

 

Þá kom að Þjóðólfsholti og borgfirsk sól ljómaði yfir Skorradal stansaði fylgdin. Félagarnir renndu þeirri rauðu af vagni sínum og hann sem bernskur hafði fengið að handleika þessa vél nýkomna í þingeyska sveit og mundi því vel hvernig hressandi díselilmurinn blandaðist graslykt á öndverðum slætti á nýræktartúnum vonglaðrar fjölskyldunnar tyllti sér í stætið. Fumlaust eins og þúsund sinnum áður hvatti hann þá rauðu til gangs sem ekki lét á sér standa.

 

Með röskum smellum þeirrar rauðu renndu þau yfir fegurstu brú Íslands, Hvítárbrú, og tóku stefnuna út að Hvanneyri, hvert komið var um kl. 11.05.

 

Þar beið hið fyrirheitna land, eins og Gullna hliðið kerlingarinnar. Munurinn var bara sá að Jón bóndi fór ófús en sú rauða glöð því eigandi hennar hafði verið fullvissaður um að þarna biðu hennar vinir í varpa...

 

Og nú var hún komin í Landbúnaðarsafnið, Farmall diesel, DLD-2, sem kom spánný að Öndólfsstöðum í Reykjadal árið 1956, ein nærri 130 slíkra er það árið komu til Íslands.

 

Sighvartur Árnason frá Öndólfsstöðum var sem sagt komin með þennan gljáandi Farmal er á sinni tíð var eign foreldra hans til þess að færa hann Landbúnaðarsafni til vörslu og eignar ásamt tilheyrandi sláttuvél.

 

Og þeir handsöluðu viðskiptin, Sighvatur og Bjarni Guðmundsson, að viðstöddum fylgdarmanni, Ingólfi Péturssyni frá Laugum. Má vera að Farmallinn rauði hafi fellt örlítið olíutár ofan í kalt malbikið er hann sá æskuvin sinn halda úr hlaði áleiðis heim aftur - norður í Reykjadal í nóttleysu voraldarinnar sem brátt mun ríkja.

 

Leiðir hafði skilið....Farmallinn frá Öndólfsstöðum var orðinn safngripur. Hans bíður rými í safninu eftir að af honum hefur verið strokið ferðaryki þá virk vika hefst að nýju.

 

Dráttarvél þessi fyllir í sögu hjá safninu, sem ekki verður tíunduð hér. Hún er safninu mikill fengur ekki síst fyrir það hve í hve góðu standi hún er. Nú bíðum við aðeins grasa sumars til þess að láta ljáinn syngja þeim viðegandi requiem.

 

Safnið færir Sighvati og Öndólfsstaðafólki miklar þakkir fyrir þennan góða grip og þessa góðu gjöf.

 

Fleira komu þeir með Sighvatur og Ingólfur en frásögn af því bíður annars tíma.