4. júní 2010

Myndefnið er fundið!

Ekki hafði fyrirspurnin hér næst á undan um býlið og fólkið lifað lengi á heimasíðunni þegar lausnin var komin:

 

Staðurinn er Hvítanes I í Skilmannahreppi hinum forna. Sér til Akrafjalls: Geirmundartinds og Pytta.

 

Við höfum líka fengið nafnið á rakstrarkonunni: Hún hét Þórdís Guðmundsdóttir  og var frá Lambadal í Dýrafirði. Verið er að leita nafna karlmannanna.

 

Það sem er sérstakt við myndina er svo sem ýmislegt, en þó einkum hin sérstaka heyvagnagerð sem þarna má sjá aftan í Farmalnum ágæta.

 

Þessi gerð var vinsæl um miðja öldina síðustu, m.a. fyrir það að með léttri ýtu á hinni rauðu dráttarvél frá IHC mátti ýta heysætum upp á vagninn og síðan draga þau af og inn í hlöðu er kom heim að garði.

 

Guðmundur Hallgrímsson, áður ráðsmaður á Hvanneyri, bjargaði í hús Landbúnaðarsafns af heimili sínu í Vatnsdal nyrðra hjólabúnaði slíks heyvagns fyrir allnokkrum árum.

 

Við höldum að hjólabúnaðurinn hafi verið norsk smíð.

 

Kann einhver að bera okkur meiri fróðleik um þessa hirðingartækni sem á sínum tíma þótti ganga næst göldrum kerlingarinnar í Odda á Rangárvöllum?