18. júní 2010

Bygging sem bjargaði Verkfærasafni

Straumur tímans fylgir stundum undarlegum farvegum. Árið 1940 var ákveðið með lögum að koma upp verkfærasafni á Hvanneyri svo bændur og bændaefni gætu á einum stað séð hvað nýjast væri og fínast í verktækni og búvélum.

 

Varla höfðu mörg misseri liðið áður en safnið var orðið fortíðarsafn, svo ör varð þróunin. Guðmundur Jónsson, síðar skólastjóri, og fleiri hlutuðust til um að flestum gripa verkfærasafnsins væri komið til geymslu í Skemmunni á Hvanneyri, elsta húsi staðarins, er byggt var 1896.

 

Í Skemmunni hvíldi safnið síðan í meira en fjóra áratugi. Er ákveðið var að blása lífi í verkfærasafnið að nýju, og þá sem minjasafni, mátti ganga að flestum gömlu gripanna þar. Þeir eru nú meðal verðmætustu gripa Landbúnaðarsafnsins.

 

Þannig má að miklu leyti þakka gömlu skemmunni á Hvanneyri , sem nú hefur verið pússuð upp í safnaðarheimili, það að hinir góðu gripir geymdust svo lengi - og raunar vel, því skemman er timburhús sem andaði en varði vætu og salti.

 

Þráðurinn, sem tengir fortíð og samtíð, er stundum mjór. En góðar vættir gættu skemmunnar, sem á sér raunar meiri sögu en hér er sögð. Fyrir allnokkrum árum varð t.d. eldur laus í skemmunni, en athygli og snarræði nemenda í nálægri kennslustofu björguðu því að illa færi.

 

Nú hefur skemman fengið nýtt og verðugt hlutverk sem safnaðarheimili Hvanneyrarsafnaðar. Vel má þó muna hið gamla hlutverk hennar og það sem Landbúnaðarsafn Íslands á henni nú að þakka.