23. júní 2010

Lýst eftir vinnumyndum af vélum frá IHC

Undirritaður er að draga saman efni um vélar frá IHC – International Harvester Co, heimsverksmiðjunni stóru – vélar sem þjónuðu íslenskum sveitum svo dyggilega að sennilega hafa eitt eða fleiri tæki frá fyrirtækinu komið á langt til alla bæi á landinu.

 

Af þeim má nefna dráttarvélarnar International 10-20, W-4, Farmall A og Cub, B-250, B-275, B-414 osfrv. að ógleymdum beltavélunum/ jarðýtunum TD 6, TD 9 og TD 14 og öllum vinnuvélunum (jarðvinnslu-tækjum, heyvinnuvélum, vögnum ... bæði fyrir hesta og dráttarvélar).

 

 

Mig langar því til þess að lýsa eftir góðum ljósmyndum þar sem einhver þessara mörgu gripa koma við sögu.

 

Áhugaverðastar eru myndir af vélum og tækjum að störfum, þar sem sjá má til fólks og hvers annars er varpað getur ljósi á þjóðlíf og þjóðhætti tökutíma myndarinnar. Meðfylgjandi mynd Guðna Þórðarsonar frá Hvítanesi er dæmi um slíka mynd. Hún var tekin um 1950.

 

Frummyndir eða vandaðar eftirtökur eru bestar en góð skönnun mynda til sendingar gerir langt til sama gagn. Þarf þá að hafa upplausnina amk 300 pkt og myndina í sinni upprunalegu stærð.

 

Ábendingar um eigendur góðra ljósmynda eru líka vel þegnar. Netfang mitt er bjarnig@lbhi.is

 

Viðbrögð við hliðstæðri beiðni fyrir rúmu ári varðandi Ferguson-vélarnar urðu töluverð. Þá bárust afar forvitnilega myndir, sem sumar voru birtar í Ferguson-bókinni.

 

Vil ég þakka þeim sem þá brugðust vel við erindi mínu, og heita um leið á lesendur til liðsinnis sem gamlar búskaparmyndir eiga, og myndir sem varðað gætu þetta viðfangsefni.

 

Bjarni Guðmundsson

Hvanneyri