2. júlí 2010

Ferguson 1938

Ýmsir verða til þess að rétta fróðleik að Landbúnaðarsafni. Á dögunum kom til dæmis bréf frá honum Kristjáni Jónssyni á Veturliðastöðum en afi hans og móðurbræður eignuðust Ferguson af eðalárganginum 1949.

Með bréfi Kristjáns fylgdi ljósmynd sem hann hafði tekið á Landbúnaðarsýningu í Osló árið 1959. Hún er birt hér.

 

„Merkilegt þótti mér að sjá,“ skrifaði Kristján, „að þessi vél var með sams konar vökvalyftu og dráttarbeisli og vélarnar sem ég var vanur að vinna með.“

 

 

Þetta er hárrétt hjá Kristjáni. Hugvitsmaðurinn Harry Ferguson var nefnilega snemma kominn niður á þá snjöllu hönnun sem varð ástæða vinsælda hinnar gráu dráttarvélar.

 

Stundum þarf hins vegar tíma til þess að vekja heiminn. Undir lok fjórða áratugarins var Harry Ferguson að bjástra við að framleiða dráttarvél undir eigin nafni. Hún vakti að sönnu mikla athygli en var bara of dýr, seldist illa, svo framleiðslan hlóðst upp.

 

Það var þá sem Ferguson fór til fundar við Ford og handsalaði heimsfrægt samkomulag um fjöldaframleiðslu á dráttarvélinni nokkuð breyttri þó (Ford 9N).

 

Ljósmyndin hans Kristjáns sýnir Ferguson 1938. Sá er skæddur gúmbörðum frá honum Dunlop en gúmmídekk munu hafa komið til sögu Ferguson árið 1937. Járnhjóla-Fergusyni, líklega sömu árgerðar, má sjá mynd af á bls. 21 í bókinni ... og svo kom Ferguson.

 

Það kostulega við Ferguson-dráttarvélina á ljósmynd Kristjáns á Veturliðastöðum er að  þar má sjá mikilvæga drætti hart nær aldarsögu dráttarvélasmíða heimsins: Allt frá fyrstu raðsmíðuðu dráttarvélinni hans Ford – Fordson F – til dráttarvéla síðustu ára.

 

Í útliti minnti Ferguson 1938 mjög á fyrstu Fordsynina, en hvað innihald snerti (vökvalyftuna t.d.) er skyldleikinn við dráttarvélar nútímans augljós.

 

Við þökkum Kristjáni Jónssyni á Veturliðastöðum fyrir ljósmyndina.