11. júlí 2010

Söfnuður fólks á safnadegi Landbúnaðarsafnsins

Landbúnaðarsafn tók þátt í íslenskum safnadegi sunnudaginn 11. júlí líkt og það hefur gert undanfarin ár. Gestir komu víða að auk hins stóra hóps velunnara safnsins nær og fjær sem jafnan kemur og leggur því lið með ýmsum hætti.

 

Það bregst ekki að fleiri eða færri gestir beri safninu verðmæti, svo sem sögulegan fróðleik, ljósmyndir, gripi og ábendingar um áhugaverða gripi og minjar.

 

Reynt er að skrá allt það og vinna síðan úr er um hægist. Á myndinni hér til hliðar sjáum við hann Grétar á Hávarsstöðum fræða safngesti um leyndardóma akbúnaðar á Herkúles-sláttuvél en þær þekkir Grétar betur en flestir aðrir. Hann hefur bjargað okkur með ýmsan fróðleik í gegnum árin...

 

 

Farin var búnaðarsöguganga um Gamla staðinn á Hvanneyri, sjá ljósmynd Ásdísar Helgu Bjarnadóttur, þar sem rifjuð var upp búnaðarsagan eins og hún birtist í 100-110 ára gömlum byggingum og ræktunarminjum á Hvanneyri. Undirritaður gekk með gestum og sagði sögur. M.a. var minnt á 110 ára afmæli Mjólkurskólans á Hvanneyri og 100 ára afmæli Gamla skólahússins sem geymt hefur fleiri búfræðingsefni í gegnum árin en nokkur önnur bygging á landinu. Í því húsi eiga íslenskar sveitir margar rætur.

 

Ullarselið var opið og þangað litu margir gestir.

 

 

Opinberun dagsins var hins vegar Kaffi Skemma, nýja kaffihúsið hennar Soffíu Reynisdóttur, í gömlu skemmunni á Hvanneyri.

 

Vöfflur og annað bakkelsi í bland við ilm af kaffi fyllti þetta þekkilega hús, sem gestir luku upp einum munni um hversu notalegt væri. Var enda stanslaus straumur gesta þangað  frá því að búnaðarsögu-göngunni lauk og fram undir mjaltatíma.

 

Á milli 275 og 300 gestir litu við á Hvanneyri á Safnadeginum 2010 skv. talningu og gestabók safnsins.

 

Þéttar og hlýjar gróðrarskúrir glöddu gesti á Hvanneyri. Illmsterk angan bjarka, túngrasa, hvannar og kerfils, svo og þornandi töðu, fyllti loftið og tjaldurinn kunni sér ekki læti á kirkjuflötinni þar sem hann reif upp hvern saklausan ánamaðkinn á fætur öðrum.  Í dag var ekki gott að vera ánamaðkur á þeirri flöt. Stelkurinn gaggaði svo yfir öllu til öryggis.

 

Landbúnaðarsafn þakkar þeim mörgu sem lögðu leið sína að Hvanneyri í dag og vonar að þeir hafi notið stundarinnar.