13. júlí 2010

Vestasti og "verstasti" Ferguson á Íslandi?

Fyrir nokkru lofaði heimsíðungur því að dregið yrði mjög úr fjöllun um tvennt hér á síðunni: Frammistöðu Skagamanna í fótbolta og Ferguson. Það fyrra var sjálfleyst en það síðara er snúnara, sakir mikils áhuga velunnara safnsins á viðfangsefninu.

 

Á vel lukkuðum safnadegi, sbr. síðustu frétt, færði nfl. einn gestanna okkur ljósmyndir, m.a. hjálagða, af því hvernig náttúruöflin og timans tönn geta leikið gripi sem þó var vandað svo til í öndverðu að nálgast áttu eilífðina hvað endingu snerti mundi.

 

Myndin er af Ferguson - hinnar gráu eðalgerðar - er háð hefur sitt lífsstríð og þraukað sinn kar-liggjanda á einum vestasta stað sem finna má á Íslandi og þá um leið í Evrópu.

 

Þarna hafa stríðir vindar, stundum komnir langt vestan af hafinu stóra, strokið Ferguson ómildilega langa haustdaga og ískaldar þorranætur og haft sér til áhalds og fulltingis ómælda slurka af salti í bland við sandfúlgur og þarablöðkur úr næsta nágrenni ...

 

Þess í millum hefur sólin starfað á vöktum mót frosti og andkulda svo sannarlega hefur reynt á málma, gúmmí og gerviefni sem smiðirnir iðju- og samviskusömu komu saman í eina dráttarvél þar niðri í Coventry - líklega á árunum rétt eftir að Churchill saug sína síðustu vindla í Dáningsstræti númer tíu.

 

Vönduðu smiðirnir þó verkin sín í samræmi við teikningar og fyrirskipanir yfirsmiðsins í gráu fötunum með sixpensarann - írska hugvitsmannsins, hans Harry Ferguson.

 

Hins vegar brást þessi grái Ferguson ekki hugmyndum meistara síns um að létta bónda og liði hans störfin, í þessu tilviki íslensks smábónda, sem önn sína ól á litlum grasgeira við úfinn sjó með ósköp af grjóti og sandi allt um kring.

 

En svona veltist nú veröldin, Guðrún mín eins og Hallgrímur segir: Gleymd eru verk hinnar gráu dráttarvélar. Eftir nokkra áratugi veit sennilega enginn að þarna stóð eitt sinn Ferguson. Ef til vill verður þó þar dálítil þúst gróin vallarsveifgrasi og fáeinum blómjurtum. Í henni kann að mega finna járn- og álleifar þegar góðum gönguskó er spyrnt í svörðinn.

 

Og gönguklæddur gesturinn spyr: Hvað er nú þetta? Drasl, sorp, mengun, ...? Sennilega, því saga lífsbaráttunnar þar við sæinn kalda verður löngu gleymd flestum.

 

Í hugann koma Íslands þúsund ár með smáblómin eilífðarinnar og fáein tár sem titra ...