26. júlí 2010

Grindarljár frá Sigurjóni á Glitsstöðum

Oft veit mikið og hlýtt regn á gott, ef ekki oftast. Í einni mestu hitaskúr sumarsins kom hann Sigurjón á Glitsstöðum færandi hendi. Það er raun ekki í fyrsta sinni sem hann og Glitstaðaheimilið leggur safninu lið með góðum gripum.

 

Safnið á það t.d. Glitsstaðafólki að þakka að til er í safninu alheill IHC-áburðardreifari (sálddreifari á járnhjólum) frá miðri síðustu öld eins og algengastir voru á þeim árum.

 

 

Sigurjón á Glitsstöðum hafði lagt merki til þess að í safnið skorti grindarljá en þeir tíðkuðust áður fyrri, þar á meðal á æskustöðvum Sigurjóns austur í Rangárþingi. Voru m.a. notaðir til þess að slá kjarngresi í flæðum sem þar eru allvíða.

 

Með grindarljánum mátti nefnilega spara rakstur. Það kom sér sérlega vel í allri vætunni; þess vegna var búnaðurinn líka kallaður rakstrarkona.

 

Sigurjón tók sig til og smíðað grindarljá eftir þeim er faðir hans, Valdimar bóndi í Hreiðri, hafði átt og notað á sinni búskapartíð. Grindina spennti Sigurjón á hvassbrýndan tíu gata bakkaljá, svo sem oftast var venjan, og með nettum tyllingi yfir í orflegginn.

 

Meðfylgjandi mynd sýnir Sigurjón bónda munda orfið með grindarljá sínum þar sem hann um leið greinir gestum á safnadegi 11. júlí sl., frá því hvernig áhaldið var gert og hvernig því var beitt.

 

Grindarljárinn – eða rakstrarkonan – er talin vera skagfirsk að frumsmíð, eignuð Sigurði bónda á Hellulandi í Hegranesi í byrjun síðustu aldar.

 

Benda má á að svipaður búnaður (cradle) og til sama gagns varð vel þekktur á orfum til kornsláttar, m.a. í Norður-Ameríku, á síðari hluta nítjándu aldar. Hugmyndatengsl kunna að hafa verið þar á milli þótt ekki sé dæmalaust að svipaðar lausnir sama viðfangsefnis hafi komið fram óháð hver annarri.

 

En allt um það bætir grindarljárinn hans Sigurjóns á Glitsstöðum í hina sýnilegu sláttusögu Landbúnaðarsafnsins og fyrir það er honum þakkað.