18. ágúst 2010

Unni hefur unnist vel ...

Hún Unnur Jónsdóttir frá Lundi í Lundarreykjadal hefur í sumar unnið að frumskráningu gagna í vörslu Landbúnaðarsafns. Gerist það með atbeina  opinbers fjármagns  til sumaratvinnu námsmanna.

 

Unnur hefur nú unnið að verkinu í tvo mánuði og unnist vel. Nú er komið að verkalokum hjá henni enda skóli hennar, HÍ/Laugarvatni, að hefja störf.

 

Okkur telst til að Unnur hafi frumskráð ríflega 95% af safnkostinum. Því má nú í grófum dráttum sjá hvað er til en gripirnir skipta hundruðum og eru þó margir skráðir undir sama númeri.  Upp hafa dúkkað hinir undarlegustu hlutir sem við höfðum óljósa hugmynd um að til væru.

 

Nú tekur við að fylla í frumskráninguna með fróðleik sem liggur í rafrænni dagsbók safnins en þar eru allir gripir, sem safnið tekur á móti, taldir.

 

Þá hefur Unnur, ásamt Guðrún Bjarnadóttur, BS, aðstoðarsafnstjóra, skráð nokkur handrit sem Landbúnaðarsafninu eru mikilvæg og geymd eru í skjalasafni LbhÍ og bókasafni Tómásar og Vigdísar við skólann, m.a. kennslubækur frá Ólafsdal og Mjólkurskólanum á Hvanneyri, sem og dagbækur nemenda Hvanneyrarskóla sem glöggt lýsa verkháttum við ræktun fyirir um það bil 70 og 110 árum.

 

Sumarið hefur því orðið drjúgt safninu með starfi þeirra tveggja, Unnar og Guðrúnar. Guðrún er launuð af rekstrarfé safnsins en laun Unnar eigum við að þakka þeim Steingrími J. frá Gunnarsstöðum og henni Jóhönnu yfirhúsmóður okkar allra. Það gerum við líka af heilum hug því þessi verk munu verða Landbúnaðarsafninu gagnleg til framtíðar.