26. ágúst 2010

Tékkarnir tékkuðu á Zetor

Um síðustu helgi komu góðir gestir að Hvanneyri, sem oftar, og litu m.a. við í Landbúnaðarsafni. Það voru nær tuttugu Tékkar sem voru í boðsferð um Vesturland á vegum Evrópusamtaka.

 

 

Þarna fóru hreppsnefndarmenn og oddvitar auk annarra megandi manna þar austurfrá sem láta sig umhverfismál öðru frekar varða.

 

Kynntu þeir sér ýmis svið orkunýtingar og sorpeyðingar hér í sveitum auk þess sem þeim var á vegum safnsins stuttlega sögð saga landbúnaðar hérlendis með sérstakri skírskotun til engjanýtingar í Borgarfirði.

 

Tékkunum var boðið að tékka á Zetor Landbúnaðarsafnsins - þeim fyrsta er til landsins kom - og smíðaður var strax eftir að tékkneska þjóðin var leidd úr álögum heimsstyrjaldarinnar síðari.

 

Í hópnum voru kunnáttumenn um Zetor er hrifust af hirðusemi Íslendinga en létu um leið harm sinn í ljósi yfir því að nú væri Snorrabúð eiginlega stekkur: Zetor stæði ekki lengur einn og sjálfur heldur hefði orðið einhverri hagræðingu og sambræðslu að bráð.

 

Tékkarnir tylltu sér einn af öðrum í Zetorinn gamla og rifjuðu upp gömul handtök. Á myndinni sjáum við sveitarhöfðingjann Zbynék Richter gleðjast yfir endurfundum.

 

Heimsókn Tékkanna í safnið var hin ánægjulegasta.

 

Nánar hefur verið sagt frá ferðum þessa góða fólks í öðrum fjölmiðlum, sjá m.a. http://www.umis.is/default.asp?sid_id=10217&tre_rod=001|002|&tId=2&fre_id=106203&meira=1