30. ágúst 2010

Heimildarmenn um hestaslátt gefa sig fram!

Dágóð viðbrögð hafa orðið við fyrirpurn safnsins um fólk sem man enn kynni sín af vinnu með hestasláttuvélum. Meira en tugur heimildarmanna hefur þegar tekið vel í að leggja Landbúnaðarsafni lið.

 

Satt að segja koma viðbrögðin heimsíðungi ögn á óvart. Því hafði verið haldið fram að flestir sem til verksins þekktu væru komnir til heyverka á grænni og sléttari túnum en hér þekkjast og þar sem austanþurrkurinn, eins og hann gerist bestur vestrá Fjörðum um 20. júlí, ríkir alla daga.

 

Við viljum gjarnan heyra frá fleirum. Enn sem komið er eru það Borgfirðingar og Norðlendingar eystri sem vinninginn hafa hvað þátttakendur snertir.

 

Við viljum gjarnan heyra frá Sunnlendingum og Austfirðingum, en eystra höfum við grun um að nokkrir heimildarmenn á besta aldri leynist.

 

Það gladdi heimsíðung ósegjanlega að koma á mikið menningarheimili á Norðurlandi eystra núna á dögunum þar sem heimasætan, enn í grunnskóla, tilkynnti heimsíðungi að hún hyggðist eiga viðtal við afa sinn um hestaslátt með spurningaskrána að bakhjarli.

 

Afi hennar hafði af sérstökum ástæðum verið aðalsláttumaðurinn á bænum þótt barnungur væri og hefði hann brúkað fjóra hesta til verksins.

 

Hikið ekki við að hafa samband ef þið getið lagt lið eða bent á líklega liðsmenn. Margt smátt gerir eitt stórt.

 

Bjarni Guðmundsson

Hvanneyri