5. september 2010

Ja, öllum skollanum safna menn ...

Á dögunum kom í safnið Frieder nokkur Luz. Hann er þýskur að þjóðerni og starfar sem prófessor í landslagsarkitektúr við háskólann í Weihenstephan-Triesdorf. Luz átti erindi við LbhÍ en notaði tækifærið og kíkti í Landbúnaðarsafn.

 

Luz er forfallinn safnari og hafði gaman að því að grúska í safninu, tiltekið hlutum sem almennt vekja ekki mikla athygli safngesta.

 

Sérstaklega varð Luz litið til eldgamals símastaurs sem í safninu er settur einum fimm keramik-kúlum.

 

Kom þá í ljós að Luz safnar einangrunarkúlum af símastaurum. Hefur hann veröldina alla undir í þeim efnum.

 

Luz sýndi heimsíðungi í myndavél sinni svipmyndir af safninu sínu. Safnið telur þegar um 2000 kúlur, sem fengnar eru víða að úr heiminum.

 

Er safninu haganlega komið fyrir í vönduðum hillum og raðað saman eftir fræðum sem Luz hefur mótað jafnhliða söfnuninni.

 

Á að líta voru hillurnar sem skrautleg listaverk: Kúlurnar eru í mörgum litum, úr gleri, keramikki og sjálfsagt fleiri efnum. 

 

Luz langaði mikið til þess að komast yfir kúlu af íslenskum símastaur. Því miður átti safnið enga einangrunarkúlu aflögu til þess að gleðja með hinn þýska gest. 

 

Hins vegar getur verið að einhver lesenda síðunnar deili eða viti um einhvern sem deilir þessu sérstæða áhugamáli með honum Frieder Luz. Kannski gætu þeir þá skipst á einangrunarkúlum af símastaurum og tilheyrandi fróðleik.

 

Svo fróður var Luz um einangrunarkúlum af símastaurum og einbeittur í kúlnaáhuga sínum að heimsíðungur fékk það á tilfinninguna að að hann skoðaði íslenskt landslag hvað helst með hliðsjón af því hvar enn mætti sjá forna símastaura krýnda keramik-kúlum.

 

Hvort einhvers staðar sæist til geysa eða gullfossa eða snæfellsjökla virtist honum hins vegar ekki leika landmunir um.

 

Heimsíðungur hefur heimilisfang hins þýska einangrunarkúlnasafnara og er fús að koma á sambandi hans við íslenska sálunauta ef einhverjir væru.

 

Viðvaningum er hins vegar eindregið ráðið frá því að hefja söfnun símaeinangrunarkúlna á undirbúnings og þjálfunar. Einangrunarkúlnasöfnun getur nefnilega verið lífshættuleg ef óvarlega er farið. Kannið fyrst hvort um er að ræða símalínu eða rafmagnslínu, sbr. ljósmyndina sem fylgir.

 

En aldeilis spauglaust, látið allar loftlínur í friði. Hvers konar röskun á þeim varðar við landslög...