23. september 2010

Safnið fær glæsileg útihús að gjöf

Fyrir nokkru kom einn af velunnurum safnsins færandi hendi: Hann færði safninu fjós með mjólkur- og haughúsi, hlöðu, fjárhús, íbúðarhús og stóra vélaskemmu.

 

 

Má sjá hluta bygginganna á meðfylgjandi mynd.

 

 

 

Við nánari aðgæslu sjáum við að hér er um að ræða fasteignir sem safninu eru afar viðráðanlegar. Viðhald verður lítið, skattar og gjöld hverfandi og allar eru byggingarnar hinar viðráðanlegustu. Galli er helst sá að húsin eru jarðlaus og búið (þar af leiðandi) kvótalaust með öllu.

 

En að dáraskap slepptum fara hér fagurlega smíðuð líkön af téðum byggingum. Þær eru allar í stíl sjöunda og áttunda áratugs síðustu aldar og eru því frábær heimild um byggingarhætti og búskaparlag þeirra tíma.

 

Hins vegar hafði líkanið lent í ýmsum veltingi á milli manna, sem allir létu sér þó annt um varðveislu þess. Á þeim veltingi glataðist að vísu nákvæm saga líkansins og höfundar þess. Það mun þó hafa verið gert í tilefni landbúnaðarsýningar og þá á vegum Búnaðarfélags Íslands.

 

Safninu er líkanið verðmætur gripaauki. Grúsk um upphaf þess og sögu er bara spennandi viðfangsefni - eflaust eru það fleiri en einn og fleiri en tveir sem þá sögu kunna þegar eftir verður gengið.

 

Þangað til sú saga liggur fyrir köllum við bæinn Hulduhóla, þótt Hvergerði (?) væri líklega betra bráðabirgðaheiti...