5. október 2010

Afmælistraktor Fords gefinn safninu

Nú síðsumars færðu Laxamýrarbændur í S-Þing. safninu Ford-dráttarvél sem þar hefur alið allan sinn 56 ára aldur. Árið 1954 kom hún þangað splunkuný. Kallaðist Ford NAA Jubilee. Var þá 50 ára afmælisútgáfa Ford-verksmiðjanna.

 

Í tilefni afmælisins höfðu Ford-verksmiðjur endurhannað dráttarvél sína, sem þá hafði verið nær óbreytt allt frá árinu 1939.

 

Afmælisútgáfan var framleidd árin 1953-1954. Dráttarvél afmælisársins hafði gyllt merki í trjónu sinni (Golden Jubilee emblem), en 1954-árgerðin hafði krómlitað merki þótt dráttarvélin væri að öðru leyti alveg eins bæði árin. Laxamýrarvélin er því með krómuðu merki.

 

Afmælis-Fordinn var ögn stærri dráttarvél en 8N-gerðin. Í henni var splunkuný toppventlavél, kölluð Red Tiger, sem einnig knúði vökvadæluna. Ýmsar fleiri nýjungar prýddu vélina. Meðal annars hafði vökvakerfi dráttarvélarinnar verið breytt til þess að koma til móts við hinn fræga málarekstur Fergusonar!

 

Afmælis-Fordinn hafði gráar hlífar og rauðan belg rétt eins og 8N-vélin. Tegundarnafnið Ford var upphleypt á báðum brettum sem og á hvorum vanga vélarhlífarinnar. Vélarhlífin hafði fengið nokkra straumlínulögun er átti eftir að bera meira á síðar. Líklega gætti þar enn áhrifa bílhönnuðanna þar í fabrikkum Fords.

 

Á meðfylgjandi ljósmynd situr Atli Vigfússon, bóndi á Laxamýri, Ford-dráttarvélina, en með henni má segja að hann yxi upp.

 

Dráttarvélin hefur verið mjög vel hirt í áranna rás og ber aldurinn því ágætlega. Við höfum ákveðið að hrófla ekki við útliti hennar, aðeins fara yfir mótor og gírkassa. Með bóni og Jóhannesar-olíu hefur áferð litanna verið skerpt.

 

Við hlið þessarar Ford-dráttarvélar mun síðan verða Ford 8N-sem safnið hefur líka fengið umráð yfir, en það er fyrsta Ford-dráttarvélin sem kom til landsins, árið 1949 - þá til Garðyrkjuskólans á Reykjum.

 

Það er afar gaman að skoða þessar tvær dráttarvélar með hliðsjón af þeim fræga Ferguson TE-A20. Má þá velta því fyrir sér hver fékk hvaða hugmynd að láni hjá hverjum og hvenær!

 

Laxamýrarbændum er þakkað vel fyrir Ford-dráttarvélina. Hún er prýðilegur safnauki sem auðveldar safninu að segja sögu dráttarvélanna.