7. október 2010

Fornvélafundurinn á Hvanneyri - 50 manns hafa skráð sig

Nú er lokið skráningu á Forn-dráttar-véla-áhuga-manna-fundinn á Hvanneyri nk. laugardag. Skráður er 51 þátttakandi og er skráningu lokið. Fundarsalurinn verður við það að springa ef allir mæta - en þröngt mega sáttir sitja.

 

 

Við ætlum að funda í sal Bútæknihússins; ekið í átt að Hvanneyrarkirkju og Landbúnaðarsafni og sveigt til hægri að húsi með 5 flaggstöngum í hlaði.  Byrjum kl. 11 og fundi lýkur ekki síðar en kl. 17.

 

Soffía og Jónína munu taka fram stóru pottana. Horfur eru á að spaða þurfi einn og hálfan dilksskrokk og taka vel til af ýmsu meðlæti auk þess sem kaffikönnur munu fá nóg að starfa.

 

Við stefnum á það að síðdegiskaffið verði vel útílátið samræðukaffi.

 

Að endingu minnum við svo á meginreglur fundarins sem kynntar voru hér á síðunni fyrir skömmu:

 

1. Maðurinn einn er ei nema hálfur; með öðrum er hann meiri en hann sjálfur

 

2. Maður er manns gaman

 

3. Maðurinn er það sem hann étur ...

 

Sjáumst á laugardaginn