10. október 2010

Vel heppnað fornvélamannamót á Hvanneyri

Fornvélamannamótið á Hvanneyri, sem lengi hafði verið boðað, var haldið í gær, laugardaginn 9. okt. Skaparinn hafði í þóknan sinni bætt enn einum blíðudeginum við þetta óminnilega góða haust svo makalaust vel fór um þá nær fimmtíu (47) forn-vélaáhugamenn er komu saman í BÚT-húsinu á hinu forna landnámsbýli Gríms háleyska.

 

Þátttakendur komu víða að af landinu: austan af landi, úr Skagafirði, af Suðurlandi og víðar að úr landnámi Ingólfs. Hvalfirðingar voru mannsterkir, sem og Snæfellingar, að ógleymdum Skagamönnum. Borgfirðingar voru hins vegar flestir til altaris á Sauðamessu sem fór fram sama dag.

 

Eftir að minnst hafði verið sjötugsafmælis Lifrarpyllingsins Jóns Lennons, gítarsláttumanns og friðarsinna, var tekið til við dagskrá fundarins:

 

Heimsíðungur hélt erindi með skyggnulýsingu um sögu og söfnun dráttarvéla og verkfæra þeirra en áður höfðu allir þátttakendur gengist undir könnun á vegum safnsins um viðhorf til fornra búvéla og starf þeirra að endurreisn þeirra. Greint verður frá niðurstöðum könnunarinnar að úrvinnslu hennar lokinni.

 

Þá greindu þrír reynsluboltar frá samneyti sínu við fornvélar:

 

Fyrstur sagði Ragnar Jónasson umsjónarmaður Ferguson-síðunnar og aðalhvati samnefnds áhugamannafélags frá reynslu sinni af varðveislu fornvéla og gaf ýmis góð ráð um hana.

 

Næstur kom Óskar Alfreðsson á Geirólfsstöðum en hann hefur sinnt varðveislu fornvéla um 40 ára skeið. Hann lagði í máli sínu einkum herslu á búverkfærin sem hinn mikilvæga þátt tæknisögunnar. Mátti hann úr háu sæti mæla - svo eljusamur sem hann hefur verið um söfnun slíkra, óháð því hvaða straumar hafa þótt fínir í samfélaginu.

 

Loks tók til máls Haukur Júlíusson, Jörvakall, sem hefur verið mikilvirkur með sínum mönnum við uppgerð gamalla véla, svo nú standa eigi færri en þrír tugir slíkra gljáandi undan högum höndum þeirra. Haukur minnti einkum á þátt dragskóflugröfunnar og kunnáttunnar í meðferð þeirra.

 

Þá var farið í skoðunarleiðangur um Landbúnaðarsafn, geymsluhús safnsins og loks til Jörva ehf. Þátttakendur deildust í hræranlega smáhópa þar sem hver fræddi annan - minnugir fyrstu reglu fundarins að maðurinn einn væri ei nema hálfur, með öðrum væri hann meiri en hann sjálfur. Kom þar glöggt fram hver kynstur þekkingar á málefninu hópurinn hafði þegar menn lögðu saman.

 

Hefðu ýmsir kosið að dvelja lengur yfir þessum ´gullmolum´eins og Erlendur yfirvélameistari Landbúnaðarsafns kallar marga gripanna sem þarna mátti sjá.

 

Þá var haldið til stuttrar samkomu í sal BÚT-húss en þar hafði verið komið fyrir véla- og myndasýningu. Ragnar Jónasson hafði sett myndasýninguna upp. Þarna fóru fram stuttar lokaumræður auk þess sem Sigmar í Lindabæ í Skagafirði sýndi ljósmyndir af forndráttarvélum sínum.

 

Mótið endaði með hressandi traktor-kaffi í matsal LbhÍ, þar sem líflegar samræður héldu áfram í smærri og stærri hópum allt til kl. liðlega 17 að hver hafði haldið af stað til síns heima.

 

Jónína Hlíðar ól önn fyrir hópnum með stórmyndarlegum veitingum að hætti þeirra mæðgna, Soffíu og hennar. Haukur og Erlendur höfðu undirbúið sýninguna í Jörva og lagt til vélar í BÚT-sal. Jóhannes Ellertsson hafði undirbúið vélasýninguna þar sem og fundarsalinn og annast allt stúss meðan á fundi stóð, sem og frágang að honum loknum. Gjaldkeri samkomunnar var Ásdís Geirdal.

 

Öllum, þátttakendum og undirbúendum, er þökkuð aðildin að þessu prýðilega fornvélamannamóti.

 

Heimsíðungur taldi sig að minnsta kosti betri mann eftir en áður...