15. október 2010

Vatnshrútur

Einn af þeim gripum safnsins sem jafnan vekur athygli og gestir vilja gjarnan kynna sér nánar er vatnshrúturinn. Vatnshrútur er meira en tveggja alda gömul uppfinning.

 

Vatnshrútar nutu töluverðra vinsælda hérlendis áður en rafmagn breiddist út um sveitir og samveitur neysluvatns komu til sögu.

 

Náttúru sinnar vegna eiga þeir enn fylgi að fagna, t.d. í þróunarlöndum, sem og meðal þeirra sem herslu leggja á vistþekka nýtingu auðlinda og umhverfis.

 

Vatnshrútur er þeirrar náttúru að geta breytt afli rennandi vatns í kraft til þess að lyfta hluta vatnsins í töluverða hæð. Víða á Netinu má finna fróðleik um starfshætti vatnshrúts, en hann heitir Ram pump  á ensku.

 

Till dæmis má byrja á alfræðiorðabókinni ágætu:

http://en.wikipedia.org/wiki/Hydraulic_ram  

 

Hérlendis hafa vatnshrútar verið í notkun allt til þessa dags svo sem við sumabústaði og gangnamannakofa. Enga hugmynd hefur heimsíðungur um útbreiðslu hrútanna en hefur þó þá tilfinningu að um hið flatlenda Suðurland hafi menn frekar notað þá en þar sem lækir koma skoppandi ofan úr hlíðum brattlendis. 

 

Hrúturinn á myndinni er merktur Hamri. Hann er frá Arnarbæli á Fellsströnd.

 

Við höfum það fyrir satt að Vélsmiðjan Hamar hafi smíðað hann og fleiri slíka. Við höfum þó fyrirvara á fullyrðingunni því smíðasögu hrútsins höfum við ekki kannað út í hörgul enn.  Kjósum við því gjarnan að heyra frá þeim sem betur kunna að þekkja til málanna.