7. nóvember 2010

60 ára aldursmunur á forntraktoranámskeiði

Í gær var haldið sjöunda námskeiðið um forntraktora - meira en járn og stál. Það var fullskipað. Áhugi geislaði af þátttendum og

traktoraumræðan gekk líflega frá kl. 10 og fram á sjötta tímann. Fylgt var sömu dagskrá og á fyrri námskeiðum.

 

Óvenju mikil breidd var í aldri þátttakenda að þessu sinni. Þeir elstu voru komnir á áttræðialdur en þeir yngstu innan við tvítugt. Hartnær 60 ár skildu elsta og yngsta þátttakandann.  

 

Hér mundi heimsíðungur því kveða fast að og segja eins og Guðni frá Brúnastöðum: Ef æskan vill rétta þér örvandi hönd þá ertu á framtíðarvegi...

 

Sérstök ástæða er til þess að gleðjast yfir áhuga ungra manna á þessum menningarþætti íslenskra sveita. Þeir munu bera kunnáttuna áfram.

 

Í hópnum voru harðsnúnir kunnáttumenn, t.d. úr bílabransanum, sem miðluðu kunnáttu og reynslu í anda þeirrar jafningjafræðslu sem námskeiðin byggjast að hluta á.

 

Með pistlinum fylgir mynd sem Sigurður Skarphéðinsson tók af kennslustofu-töflunni eftir að á hana höfðu verið páruð nöfn þeirra dráttarvélargerða sem þátttakendur voru að vinna með eða áttu og bíða aðhlynningar. Flóran er fjölbreytt en þó eru sumar tegundir algengari en aðrar. Bendið á myndina til þess að fá hana stærri.

 

Framhald og þá eftir hætti form námskeiðanna verður nú rætt. Vel má vera að við bjóðum fram efni í þessum flokki þegar sól hefur aftur hækkað á lofti.