21. nóvember 2010

Dagsins glymja hamarshögg ...

 ... heimurinn er í smíðum, hafði Guðni Ágústsson frá Brúnastöðum eftir einhverju stórskáldanna. Nú á það við í Halldórsfjósi á Hvanneyri þar sem verið er að ryðja Landbúnaðarsafni til rúms.

 

Að vísu er ekki lengur hægt að tala um hamarshögg því nú eru loftbyssur brúkaðar til þess að negla í stað hamra. Hamrar eru því fremur embættistákn iðnaðarmananna en títtnotuð áhöld.

 

Það eru liðsmenn PJ-bygginga sem nú standa í breytingum af ýmsu tagi í mjólkurhúsi, kálfastíu, mjaltabás, fjósi og á fjóslofti - og fara í einu og öllu eftir ráðgjöf Sigríðar Sigþórsdóttur arkitekts (www.basalt.is )

 

Að hluta eru notaðar "munnlegar teikningar" sem er byggingartæknifræðilegt nýyrði í eyrum heimsíðungs. Þær felast í því að þegar verið er að breyta gömlu og virðulegu húsnæði þarf að fara varlega fram og muna á hverri tíð eftir því að spilla hvorki efni, hugsun né hugmyndum þeim sem réðu frumgerðinni.

 

Þá hefur smiðurinn, í þessi tilviki Kristjánarnir eða Sævar, Guðmundur eða Gísli, augað heldur betur hjá sér, hvernig haga beri umbótum en jafnframt nýtingu hins eldra í samræmi við hugmyndir arkitektsins.

 

 

Þannig er nú verið að grófvinna fjóshlutann þar sem áður stóðu 80 mjólkurkýr, sem og mjólkurhúsið og kálfafjósið.

 

Á loftinu, þar sem áður var íbúð fjósameistara m.a., er verið að fækka veggjum og slá saman rýmum með það fyrir augum að skapa safnfólki framtíðarinnar vinnuaðstöðu. Þar á líka að koma fyrir að minnsta kosti um sinn bókakosti safnsins, skjölum, bókum og bæklingum ofl.

 

Síðast en ekki síst verður eldhúsi fjósameistara breytt í kaffistofu því heimsíðungur lærði það fyrir mörgum árum að stofnun yrði ekki til fyrr en búið væri að koma fyrir kaffistofu. Stofnunin er nfl. kaffistofan: þar verða til hugmyndir, þar er þeim líka stútað og tekin ákvörðun um það hvað skuli gera næst, nú eða að ekki gert...

 

Þótt tómahljóð sé í kassa vonumst við til þess að geta komið öllum þessum verkum að áfangaskilum.

 

Verkið er tekið eins og fjárrekstur: Hver stóráin, sem yfir er farið, og hvert fjallaskarðið, sem að baki er lagt, veldur því að morguninn eftir má byrja reksturinn á nokkurn veginn sama stað, því safnið leitar ekki til baka - það þokast alltaf heldur heim á leið vegna elju og eðlislægs sauðþráa smalanna.

 

Myndirnar, sem fylgja fréttinni, voru teknar 18. nóv. sl. þar sem smiðir voru að störfum sínum, glaðbeittir og vandvirkir, svo sem fyrirtækið PJ-byggingar er þekkt fyrir.