16. janúar 2011

Ford-dráttarvél 1949 - nýjasti safnaukinn

Á fyrsta degi eftir sólkomu á Hvanneyri kynnum við nýjasta safnauka Landbúnaðarsafnsins. Það er Ford dráttarvél (8N) árgerð 1949, sú fyrsta sem til landsins kom. Þær komu alls 15 að því er skýrslur herma, árin 1949-1951 (1, 5 og 9 hvert áranna).

 

Þessi Ford kom til Garðyrkjuskólans að Reykjum í Ölfusi. Þar gekk hún til margra verka og naut góðrar meðferðar og hirðu.

 

Á myndinni sjáum við hann Guðjón Helga Ólafsson, umsjónarmann fasteigna þar á bænum, sitja Fordinn í hinu gróðurprúða umhverfi að Reykjum einn fallegan haustdag 2010.

 

Það var einmitt Guðjón Helgi sem stillti ögn og lagaði gangverk Fordsins svo dráttarvélin skaust í gang. Síðan flutti hann vélina upp að Hvanneyri þar sem Jóhannes Ellertsson kennari pússaði af henni ferðarykið og rauð hana jóhannesarolíu, svo nú glansar hún í elli sinni.

 

Þannig mun dráttarvélin fá að njóta sín til framtíðar, bæði í safninu og við hátíðleg tækifæri utan safnsins, t.d. á Reykjum, þar sem æska hennar og glöðustu starfsárin stóðu.

 

Ford-inn var hluti Eylandssafns, sem Grétar J. Unnsteinsson skólastjóri kom upp við Garðyrkjuskólann árið 1989, en afhent var Landbúnaðarsafni til varðveislu á liðnu vori, eins og glöggir lesendur kunna að minnast.

 

Ford-inn er í prýðilegu standi, svo sem á myndinni má sjá. Í safninu verður hann m.a. holdgervingur samstarfs þeirra Fords og Fergusonar, sem hófst með handsalinu fræga, en lauk í styttingi frammi fyrir dómurum, við þref einmitt út af þessari dráttarvél... Sú saga er bæði löng og eftir því dapurleg.

 

Gaman er að eiga hlið við hlið fyrstu Ferguson-dráttarvélina, sem til landsins kom, og fyrstu Ford-dráttarvélina, og geta í einu augnakasti séð hversu undra líkar þær eru. Það skal þó viðurkennt að römmum æskuvini hins gráa Fergusonar þykir sumt pínulítið gervi-legt og óekta við Ford-inn.

 

Það er hins vegar bara rækallans sérviska og ekksentrísk prívat-sjónarmið sem heiðvirður safns-ábyrgðarmaður má ekki láta um sig spyrjast... Hann á að gleðjast yfir góðum safnauka, safnauka sem enn þéttir í söguna stóru sem safnið á að segja gestum sínum og öðrum er um þróun landbúnaðar og tækni vill fræðast.