25. janúar 2011

Fornir jarðræktarhættir - Erindi í málstofu LbhÍ

Mánudaginn 31. janúar nk. heldur Bjarni Guðmundsson, verkefnisstjóri Landbúnaðarsafns Íslands erindi í málstofu Landbúnaðarháskóla Íslands á Keldnaholti í Reykjavík. Erindið nefnist Fornir jarðræktarhættir. Hér neðar á síðunni er ágrip efnis þess, sjá líka www.lbhi.is

 

Erindið hefst kl. 15. Málstofan, sem er reglulegur þáttur í starfi Landbúnaðarháskólans, stendur venjulega í klukkustund eða svo.

 

Málstofan er send út á vef skólans og er aðgengileg þar eins og nánar er lýst á hægri brún heimasíðunnar áðurnefndu - undir Málstofa

http://www.lbhi.is/pages/1943

 

 

Ágrip erindis:

 

Gróðurskilyrði á Íslandi henta betur fjölærisræktun, svo sem grasrækt til beitar og heyöflunar, en einærisræktun eins og kornrækt. Lengst af sögunnar virðist fremur lítið hafa farið fyrir jarðrækt með jarðvinnslu og skipulegri gróðurrækt.

 

Í erindinu verður fjallað um nokkra forna hætti íslenskrar jarðræktar og endurreisn hennar á 18. og 19. öld. Rætt verður um akuryrkju en sérstaklega fjallað um túnasléttun – glímuna við þúfurnar, er kalla má einkenni íslensks ræktunarlands, sé það borið saman við ræktunarlönd þeirra þjóða sem helst voru Íslendingum fyrirmyndir. Þúfurnar rýrðu vinnuafköst og takmörkuðu því árlegan heyfeng landsmanna, og þá um leið fæðugrundvöll þeirra.

 

Margt bendir til þess að það verklag við sléttun túna, er tók að breiðast út upp úr  miðri 19. öld, hafi átt sér erlendar og að stofni til eldfornar fyrirmyndir í akuryrkju. Þar er um að ræða beðasléttunina, sem fyrstu búfræðingarnir og síðan búnaðarskólarnir upp úr 1880 tóku að beita og breiða út. Minjar um þetta verklag við ræktun má enn sjá víða um land. Tekin verða nokkur dæmi um jarðræktarhætti nágrannalanda til samanburðar.

 

Erindið er meðal annars byggt á nokkrum rannsóknum sem höfundur hefur gert á jarðræktarminjum hérlendis.