2. febrúar 2011

Vel sóttur flæðiengjafundur á Hvanneyri

Á fjórða tug áhugamanna um nýtingarsögu borgfirsku flæðiengjanna lét umhleypingar tíðarfars ekki aftra sér frá mætingu til fræðslu- og fróðleiksöflunarfundar á Hvanneyri að kvöldi Kyndilmessu.

 

Meðfylgjandi mynd tók heimsíðungur af fundarmönnum í lok fundarins.

 

Þetta var síðari almennings-fundurinn í verkefninu. Það er styrkt af Borgarbyggð og Framleiðnisjóði landbúnaðarins, auk Landbúnaðarsafns og Laxveiði- og sögusafnsins í Ferjukoti með ýmissi velvild Landbúnaðarháskólans.

 

Á fundinum greindi verkefnisstjórinn, Ragnhildur Helga Jónsdóttir land- og umhverfisfræðingur í Ausu, frá nokkrum efnisatriðum sem fjallað hefur verið um, einkum þau sem frekari vitneskju vantar enn um. Lögðu fundarmenn fram ábendingar og fróðleik, sem unnið verður frekar með og rætt sérstaklega við þá um í framhaldi af fundinum.

 

Í upphafi fundarins var gerð könnun á því hvað fundarmönnum kæmi fyrst í hug þegar nefndar væru flæðiengjar og nýting þeirra.

 

Þá voru sýnd stutt kvikmyndabrot af engjaheyskap í Borgarfirði um miðja síðustu öld. Vöktu myndirnar athygli og rifjuðu upp horfna verkhætti.

 

Líflegar samræður urðu á fundinum og yfir kaffi og konfekti, hinu síðara í boði ónefnds stuðningsaðila Landbúnaðarsafnsins.

 

Nú verður tekið til við lokavinnslu verkefnisáfangans með það í huga að koma efni hans og niðurstöðum fyrir almennings sjónir með einum eða öðrum hætti.

 

Auk Ragnhildar verkefnisstjóra sitja í verkefnisstjórninni þeir Þorkell Fjeldsted í Ferjukoti og Bjarni Guðmundsson á Hvanneyri.

 

Hafi lesendur ábendingar um viðfangsefnið eru þeir eindregið hvattir til þess að hafa samband við einhvern úr verkefnisstjórninni. Þeir munu þá bætast í stóran hóp heimildarmanna sem þegar eru komnir á lista verkefnisins.