5. febrúar 2011

Gripur með merka sögu

Á síðastliðnu sumri færði heimilisfólkið í Hlöðutúni Landbúnaðarsafni merkilegan grip. Það er skrúfstykki sem við fyrstu  sýnis virðist vera ósköp venjulegt og líkt öðrum slíkum. Við nánari skoðun sést þó að það er fornlegt. 

Saga skrúfstykkisins er þekkt og þeir Hlöðutýningar létu hana fylgja gripnum, sem Jóhannes vélameistari safnsins og Kristján Ingi trésmiður þess hafa nú gert til góða eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

 

Sagan er sú að skrúfstykkið sé ættað úr smiðju Torfa Bjarnasonar í Ólafsdal.

 

Frá Torfa fór það til Ragnheiðar dóttur hans og tengdasonar, Hjartar Snorrasonar, er voru skólastjórahjón á Hvanneyri um fyrri aldamót.

 

Gripurinn fylgdi þeim hjónum er þau fluttu að Arnarholti í Stafholtstungum, í næsta nágrenni vinafólks síns að Hlöðutúni.

 

Nábýli var sérlega gott með fjölskyldunum þar efra og þegar Ragnheiður, orðin ekkja, flytur frá Arnarholti, færði hún vinafólki sínu að Hlöðutúni gripinn að gjöf - vildi ekki að hann hyrfi með öðrum búsmunum til vandalausra.

 

Í Hlöðutúni var skrúfstykkið varðveitt í samræmi við sögu þess, uns Brynjólfur bóndi Guðmundsson kom með það á liðnu sumri og afhenti safninu ásamt æviágripi stykkisins. Lítið þurfti að gera við gripinn sjálfan annað en pússa hann og rjóða smálega með jóhannesarolíu til varðveislu og sýningar.

 

Samkvæmt sögunni hefur Torfi notað gripinn við landsfræga smíði sína þar í Ólafsdal. Gripurinn gæti því líklega sagt merkilega sögu ef mál hefði ....

 

Skrúfstykkið bætist í hóp allnokkurra gripa sem safnið á og komnir eru frá Ólafsdal.

 

Rætt hefur verið um það á vettvangi Ólafsdalsfélagsins að gera skrá yfir þá gripi sem úr smiðju Torfa eru komnir, bæði þá sem þegar eru á söfnum og hina sem enn eru utan safna eða formlegrar varðveislu.

 

Allar ábendingar um þá og þar um eru vel þegnar.