10. febrúar 2011

Þegar Íslendingar fengu almennilega rakstrarvél – kafli úr væntanlegri bók

Í dag sýnum við ykkur hlutamynd af rakstrarvélinni í Landbúnaðarsafninu. Hún er af gerðinni IHC eins og hundruðir annarra rakstravéla sem til Íslands bárust – fyrir hestsdrátt, að sjálfsögðu. Þessi er komin frá Fagranesi í Aðaldal.

 

Takið eftir tindunum. Þeir hafa I-lögun séu þeir skornir um þvert. Þeir eru þungir en geta hlaupið á allmiklu bili undan mishæðum í sverði; hvort tveggja ásamt lögun þeirra og þunga gerði að bændum fannst þessar vélar raka afar vel.

 

 

 

Á bak við þessa algengu rakstrarvél er dálítil saga. Árni G. Eylands handskrifaði hana inn í leiðrétt og efnisaukið eintak sitt af bókinni Búvélar og ræktun, sem Bændasamtök Íslands afhentu Landbúnaðarsafni í maí sl. með bókasafni Árna. Og við við birtum örstuttan kafla úr væntanlegri bók heimsíðungs um IHC-vélarnar á Íslandi; í honum kemur saga Árna fram:

 

Fyrir bændur í Bæheimi og Pódal – Rakstrarvélin frá IHC

 

Sú hestavél sem hvað víðast ber fyrir augu ferðamanna í misjafnri hirðu um holt og móa er rakstrarvélin; hestahrífan eins og nágrannar okkar á Norðurlöndum hafa gjarnan kallað þessa hjólastóru heyvinnuvél með bogtindana þéttsetta á hrífuhausinn aftan við hjólaöxulinn. Raunar var hún einnig kölluð hjólhrífa sem var réttnefni. Þær fyrstu, sem til landsins komu, voru franskrar gerðar (Puzenat), segir Árni G. Eylands; þær komu árið 1921 og reyndust raka „langtum betur en hér hafði áður verið talið, að vélar gætu gert.“

     Amerískar hestahrífur með boglaga tindum voru sýndar í Bretlandi þegar árið 1839 og árið 1867 fékk bandaríska fyrirtækið Ames Plow Co. einkaleyfi á þeirri bogtindagerð rakstrarvélar er síðar varð alþekkt.

     Í ljósi góðrar reynslu af fyrstu rakstrarvélunum hóf SÍS að flytja inn slíkar vélar frá verksmiðju IHC í Þýskalandi því á Norðurlöndum voru þær óþekktar. Hartnær eitt þúsund IHC-rakstrarvélar bárust til landsins áður en heimsstyrjöldin síðari skall á og tók fyrir innflutning frá Þýskalandi. Segir það nokkuð um vinsældir vélanna hérlendis: Með eigin reynslu staðfestir höfundur það að unglingur og lipur dráttarhestur gátu náð miklum afköstum við samantekningu þurrheys með slíkri vél. Er heimsstyrjöldin skall á leitaði SÍS vestur um haf eftir rakstrarvélum frá IHC. Þær voru hins vegar með sívölum gis-settum tindum og þóttu standa hinum þýsku rakstrarvélum að baki hvað vinnugæði snerti.

 

„Árið 1930(?) var jeg á ferð í Svíþjóð, Tom Anderson dir[rektör] hjá I.H.C. kvartaði undan því að við í S.Í.S. keyptum engar rakstrarvjelar. Jeg sagði að vjelar þeirra væru lítt nýtilegar, og sagði honum frá frönsku vjelunum tveimur með stífu tindunum. Hann varð forviða: „Hvernig í ósköpunum gat okkur dottið þetta í hug, við – Harvester – höfum lengi búið til slíkar vjelar, en eins og þú veist eru þær alókunnar á Norðurlöndum, en þær eru notaðar suður í Bæheimi, í Pódalnum og víðar.“ Dir[rektör] Anderson hafði engar vöflur á þessu, fór með mjer daginn eftir til Hafnar og sendi verkfræðing – Foss – með mjer þaðan niður til Neuss í Þýskalandi þar sem þjetttindaðar rakstrarvjelar með stífum tindum voru smíðaðar. Þetta varð upphaf að innfl[utningi]  slíkra vjela frá I.H.C. “...

 

 

     Ef allt fer eftir áætlun kemur bókin, sem ber vinnuheitið Alltaf er Farmall fremstur, út á miðju næsta sumri hjá bókaútgáfunni Uppheimar á Akranesi.