16. febrúar 2011

Ungt fólk í heimsókn

 Í gær, þriðjudag 15. febr., heimsóttu nemendur 3. og 4. bekkjar Grunnskóla Borgarfjarðar á Hvanneyri Landbúnaðarsafnið. Nemendurnir voru að kynna sér lífshætti gamla tímans og var heimsóknin liður í því.

Við tókum sláttinn, orfið og ljáinn fyrir, allt frá þeim tíma þegar landsmenn smíðuðu sjálfir sína ljái, keyptu þá frá útlöndum og til þess tíma er sláttuvélarnar komu, bæði fyrir hesta og dráttarvélar.

 

Nemendurnir voru hinir áhugasömustu. Líklega varð einna mesta sportið í þeirra augum að mæla þverhandir sínar við barnaorfið sem hann Guðmundur Böðvarsson á Kirkjubóli smíðaði, en það er í safninu.

 

Þannig gátu nemendur fundið út hvort orfið passaði þeim, og orfið gerði það raunar þeim mörgum - að minnsta kosti ef miðað var við níu þverhandir neðan neðri hæls!

 

Síðan var tekin stund í það að finna út af hverju hestur af heyi heitir hestburður og hrosshársreipið skoðað í nokkrum smáatriðum.

 

Síðan kíktu nemendur á dráttarvélasafnið og fleira forvitnilegt sem þarna er að sjá.

 

Um árabil hafa nemendur Grunnskólans á Hvanneyri heimsótt safnið.

 

Safnið þakkar nemendum og kennara, Fjólu Benediktsdóttur, fyrir komuna. Fjóla tók meðfylgjandi mynd.