23. febrúar 2011

Farmall er tilbage!

Að þessu sinni er titill fréttarinnar upp á dönsku. Tíðindamaður safnsins og velunnari, sem tímabundið heiðrar Margrétu drottningu Friðriksdóttur og hennar fólk með nærveru sinni, vakti athygli vora á tíðindum þessum sem meira má lesa um á síðunni http://www.maskinbladet.dk/artikel/farmall-tilbage

 

 

Þeir hjá Case IH hafa nefnilega sett á markað dráttarvélina Farmall C. Í eyrum roskinna Farmal-áhugamanna hljómar þetta afar spennandi á ári Nallans því nafnið vekur fornar kenndir og traust, ættað frá þeirri tíð er háfættur og mjóleggja Farmall A boðaði komu friðar og nýrra tíma til sveita á Íslandi vorið 1945.

 

En þetta með danska titilinn á fréttinni er ekki alveg út í bláinn því laust fyrir 1930, er fyrstu Nallarnir komu til Íslands (IHC 10-20) bárust tíðindin um þá frá Danmörku öðrum löndum fremur, frá fyrirtæki við Gammeltorv í Kbhöfn sem hét Brödrene Bendix.

 

Frá Bendix-bræðrum kom m.a. afar vandaður kynningarbæklingur um IHC 10-20 sem barst um íslenskar sveitir; hvers eintak skorrdælskur góðbóndi barg fyrir margt löngu undir verndarvæng Landbúnaðarsafns. 

 

Íslendingar gerðu síðan fyrstu stór-draga-kaupin í þessari vélartegund.

 

Gamli bæklingurinn áttræði barst yfir úfið haf með dampskipi frá Höfn og þaðan áfram með landpósti og ferjubát líklega um Kjalarnes, þverfirðis um Hvalfjörð og yfir hálsana tvo upp í Skorradal. Hefur eflaust brúkað langt til mánuð í reisuna.

 

Skeytið, sem þessi frétt er byggð á, lagði af stað klukkan langt gengin í átta á þessum blessaða morgni, frá fulltrúa vorum við sinn morgungraut á frjósömum sléttum Jótlands; það mun hins vegar verða komið fram í Skorradal eftir fáeinar mínútur.

 

Hvernig verður þetta með tíðindin af Farmall E árið 2077 ?

 

Vér giskum á að þá muni fréttin berast hingað sólarhring áður en hún verður til ....