25. mars 2011

Þekkir þú örnefni tengd þúfnabananum?

Þúfnabaninn var stórvirkt jarðræktartæki sem opnaði augu margra hérlendis fyrir getu vélaafls til túnasléttunar. Þúfnabaninn átti blómaskeið sitt á árunum 1921-1928 en vék fyrir hefðbundnum dráttarvélum er þá tóku að breiðast út.

 

Þúfnabaninn kom einkum við sögu í sveitunum kringum Reykjavík, við Eyjafjörð og lítils háttar fyrir austan Fjall.

 

Sex þúfnabanar komu til landsins en aðeins einn er varðveittur, alllúinn, í Landbúnaðarsafni Íslands á Hvanneyri.

 

Undirritaður er að tína saman fróðleik um þúfnabanann og hefur m.a. heyrt um spildur í túnum á þessum svæðum, sem enn bera heiti tengd nafni og verkum þessarar merkilegu vélar.

 

Nefna má nöfnin Þúfnabanaslétta, Þúfnabanaflöt og Banahóll. Örnefnin varpa með sínum hætti ljósi á sögu og áhrif þúfnabanans.

 

Með þessum skrifum langar mig til þess að biðja þá sem við þúfnabana-tengd örnefni kannast í túnum sínum, eða þar sem þeir þekkja til, að gera mér viðvart.

 

Auk bæjarnafns og spilduheitis er ég einnig á höttunum eftir hugsanlegum sögnum sem tengjast nafninu eða skýra það nánar.

 

Einnig hvort umrædd spilda sé á mýrlendi eða þurrlendu, hvort áætla megi stærð hennar auk annars sem kann að gera spilduna sérstæða í augum heimildarmanns.

 

Fróðleikinn má senda mér

um tölvupóstinn bjarnig@lbhi.is eða

um símann 844 7740 ... nú eða bara með landpóstinum til mín

Túngötu 5 Hvanneyri, 311 Borgarnes.

 

Bestu þakkir!