31. mars 2011

Hestasláttur .... enn!

Nú hefur vorhugur færst í heimsíðung því gæsir Hvanneyrarstaðar eru teknar að streyma úr vetrarheimkynnum sínum og á göngu í gærkvöld heyrðum við hvíííííí tjaldsins úti í myrkrinu.

 

Síst minna munar um það að af Skaga berast þær fréttir að menn þar muni aftur teknir að ráða við fótknött í þeim mæli að samjöfnuð þoli við aðrar sóknir nærlendis.

 

Elur heimsíðungur því von í brjósti um að hinir gulu og (löngum hér áður fyrr meir) glöðu muni nú megna að komast upp um deild ... en málið snýst um annað.

 

Eins og glöggir lesendur heimasíðunnar muna leitaði safnið til hugsanlega heimildarmanna um slátt með hestum, sjá fréttasíðuna:

http://www.landbunadarsafn.is/frettir/nr/106136/ 

 

Jafnt og þétt hefur togast inn fróðleikur. Nú eru komin svör við spurningalistanum á ofangreindri síðu frá vænum hópi heimildarmanna. Og koma fleiri hefur verið boðuð.

 

Sum svaranna eru mjög rækileg enda frá mönnum komin sem stunduðu þetta verk í æsku sinni.  Þá hefur einnig nokkuð borist af ljósmyndum tengdum efninu. Þær koma verkefninu sérstaklega vel.

 

Við hvetjum enn til þátttöku þá sem einhverja sögu hafa að segja: margt smátt gerir eitt stórt. Ekki láta það tefja ykkur þótt þið teljið ykkur ekki hafa með mikið að fara.

 

Nokkur svaranna eru frá konum. Af þeim er mikill fengur vegna þess að viðhorf kvenna til hestanotkunar hefur líklega verið eilítið annað en karla. Raunar er það sérstakt rannsóknaefni sem heimsíðungur hefur mikinn hug á að kannað verði.

 

En ef þið eigið eða vitið af minningum glöggra heimildarmanna um hestaslátt biðjum við ykkur endilega taka þátt í þessum rannsóknaleik okkar.

 

Hafið samband ef e-ð er óljóst eða spurningar vakna.