14. apríl 2011

Bautz - merkileg dráttarvél

Í þeim urmli tegunda og gerða dráttarvéla, er til Íslands hafa komið, er ein sem sérlega lítið lætur yfir sér. Hún heitir Bautz. Áhugasamir geta t.d. fræðst um hana á síðunni http://bautz-traktoren.12see.de/

 

Því er málið vakið nú að einn af velunnurunum Landbúnaðarsafns hefur nýlega sent safninu ljósmyndir af þessari vél og raunar fleira efni, sem tengist dráttarvélinni.

 

Það er hún Þorbjörg Gígja á Naustanesi við Kollafjörð sem hér á í hlut. Þangað kom einn þeirra fáu Bautz-dráttarvélum er seldar voru hérlendis og þar vann Bautz-inn mörg þörf verk.

 

Meðfylgjandi mynd sýnir Guðbjörgu Gígja slá með Bauz-inum fallega sáðsléttu sumarið 1963 þar heima í Naustanesi.

 

Það var víst heildverslunin Hekla sem flutti Bautz-vélarnar inn á árunum 1952-1957. Aðeins átján vélar ku hafa komið til landsins.

 

Bautz tilheyrði þeim flokki þýskra dráttarvéla er ruddu dísel-siðnum braut hérlendis. Deilt var um ágæti díselvélanna en reynslan skar fljótt úr um ágæti þeirra.

 

Bautz er smávaxin vél en afar vel og haganlega smíðuð, hefur MWM-mótor sem þekktir eru fyrir vandaða gerð. Miðtengd sláttuvél fylgdi og fleiri verkfæri, m.a. heyhleðsluvél, ef heimsíðung brestur ekki minni. Skoðið til dæmis athyglisverðan ársnotahring Bautz sem sýndur er á heimasíðunni áðurnefndu, http://bautz-traktoren.12see.de 

 

Heimsíðungur hefur ekki lagst í rannsóknir á því hví ekki seldist meira af þessum dráttarvélum: kann þar að hafa ráðið kaupverð, dísel-andúð eða það að það var ekki rétta fyrirtækið sem umboðið hafði....

 

Ein Bautz-vél, ættuð norðan af Ströndum er í hvíldarinnlögn á Landbúnaðarsafninu, í eigu Rúnars Sverrissonar, afar vel upp gerð hjá honum. Kunnugt er um fleiri Bautz-a ofan moldu, suma alheila enn...

 

Þar norður á Ströndum var Bautz-inn jafnan nefnd Baunin, enda mun Ferguson-eigendum hafa þótt lítið til hennar koma, og hún því orðið fyrir bútæknilegu einelti eins og stundum gerðist.

 

En dráttarvélin sannar að margur er knár þótt hann sé smár. Bautz á sinn tón í symfóníu dráttarvéla síðustu aldar.

 

Við þökkum Þorbjörgu í Naustanesi myndsendinguna og fróðleikinn. Myndirnar fylla í íslenska dráttarvéla-sögu-mósaikkið sem hægt og sígandi er að verða til.