15. apríl 2011

Bautz - Hekla og Glóbus

Einn af traustustu heimildarmönnum Landbúnaðarsafns hafði samband vegna fréttar hér á síðunni um þýska Bautz-traktorinn. Benti hann á að árið 1957 hefði Glóbus hf - fyrirtæki Árna Gestssonar -  auglýst téðar vélar, sbr. hjálagða auglýsingu úr Tímanum 5. febrúar 1957.

 

Svona utan dagskrár má nefna það að auglýsingar blaða og tímarita geta verið afar gagnlegar heimildir um framvindu tæknisögunnar. Þetta á ekki síst við tæknisögu landbúnaðarins.

 

Það var sem sagt Hekla hf sem hafði umboðið fyrir Bautz í fyrstu (1952) en síðan virðist það hafa færst í hendur Glóbus hf sem um þá var nýstofnað fyrirtæki, og gat sér helst orð á auglýsingamarkaði fyrir Gillette-rakvörur.

 

Ekki virðist þessi auglýsing Glóbus hafa hafa borið mikinn árangur því aðeins seldust 2 dráttarvélar af Bauz-gerð árið 1957, megi marka skrár þar um. Síðan munu fleiri ekki hafa selst af þeirri tegund.

 

Heimildarmaður okkar benti líka á að í téðri auglýsingu er boðin rakstrarvél fyrir einn hest. - Um þessar mundir voru hestaverkfæri að hverfa af markaði.

 

Heimsíðungur hefur heimild um eina hestarakstrarvél, selda árið 1960. Hún kom í Borgarfjörð. Síðan ekki sögunnar meir.

 

Ætli hún sé síðasta hestaverkfærið sem selt var hérlendis?

Heimildir um viðfangsefnið eru vel þegnar...