16. apríl 2011

Af mokslægju - sláttusaga

Heimsíðungur hefur um nokkurt árabil dregið saman efni í bálk sem hefur vinnuheitið Íslensk sláttusaga. Verkið hefur spurst lítillega út og því hafa ýmsir orðið til þess að senda honum frásagnir, myndir, vísur og jafnvel gripi sem tengjast slætti og amboðum gegnum tíðina: Afar vel þegið allt saman og þakkarvert sem Landbúnaðarsafn mun njóta.

 

Af því að heldur birtir hvað snertir frammistöðu Skagamanna í fótknattleik þessa dagana, verður nú höfð eftir sláttusagan sem heimsíðungi barst síðast. Til hennar höfðar rissið sem lagt er með.

 

Tekið er fram að mannanöfnum er breytt og kantar sögunnar pússaðir til lítillega.

 

Sagan gerðist í dálitlu þorpi í grasleysisári. Það var á þeirri tíð þegar flestir reyndu að bjarga sér með nokkar kindur í kofa og kannski kú með nágrannanum, fjölskyldunni til uppheldis.

 

Blettir til heyskapar voru hér og hvar í þorpinu og næsta nágrenni þess, flestir smáir harðbalar.

 

Þótt lítil væru efnin ræktuðu menn með sér heilbrigðan metnað meðal annars fóðraðan á eðlilegri forvitni um hagi og athafnir nágrannans; annars hefði þetta ekki verið þorp.

 

Rekjudag þá ekki gaf á sjó var hann Elimundur á rölti um plássið, svona til þess að líta eftir því hvað væri að gerast, enda var feisbúkk þá enn í húfu skaparans (eða hvaðan nú annars sá sæli miðill kom...).

 

Í nokkrum fjarska sér þá Elímundur að Rósinkar nágranni hans stendur að slætti og fer óvenju mikinn. Undraði Elímund hversu Rósinkar reiddi orfið hátt og seildist um breitt með ljánum; venjulega var Rósinkar ekki svona stórhöggur þarna á blettinum sínum.

 

En það sem undraði Elímund þó meir var hve firnamikil slægjan var: Grasið virtist ná Rósinkar í mitti og vel það. Elímundur horfði á sláttumanninn stund en sakir hins þorpslæga metnaðar vildi hann alls ekki hitta vin sinn Rósinkar fyrir við þessar aðstæður, múgandi stórt í mokslægju, hafandi sjálfur snöpin ein heima á sínum bletti.

 

Elímundur rölti því hljóður og ögn svekktur áfram og heim á leið. Mætir þá brátt góðvini sínum, honum Búa, sem líka var á röltinu um þorpið.

 

Eftir rækilegar umræður um veðrið iog gæftaleysi leiðir Elímundur talið hikandi að slægjunni sem hann kvaðst hafa séð hjá Rósinkar - þar væri nú aldeilis sprettan:

 

Búi glottir við og segir síðan: Hva, sástu það ekki?  Hann Rósi fór niðrá hnén á meðan þú gekkst hjá ....