20. apríl 2011

Líkan gert af sögulegri nýjung

Undanfarið hefur Landbúnaðarsafn dregið að sögufróðleik um súgþurrkun. Þessi heyverkunaraðferð barst til Íslands frá USA, en var löguð að íslenskum aðstæðum og náði gríðarlegri útbreiðslu.

 

Talið er að þegar mest var hafi 3/4 hlutar heyfengs landsmenna verið súgþurrkaður með einum hætti eða öðrum.

 

Rúllutæknin ruddi svo súgþurrkuninni til hliðar á fáeinum árum um og upp úr 1990.

 

Enn súgþurrka samt nokkrir bændur töður sínar enda ekkert hey jafngott og vel súgþurrkuð taða.

 

Á Hvanneyri hefur varðveist ýmislegt sem tengist súgþurrkunar-rannsóknum en þær voru um tíma umfangsmiklar þar.

 

Fyrir tveimur árum færði Jóhannes Gestsson frá Giljum í Hálsasveit safninu ýmisleg gögn er varða súgþurrkun, sem þar var sett upp á 3. sumri tækninnar hérlendis, 1946. Að beiðni heimsíðungs hefur Jóhannes svo ritað greinargerð - þjóðháttalýsingu - um súgþurrkunina á Giljum á fyrstu árum hennar.

 

Þá má nefna að í gögnum sem afkomendur Jóhannesar Bjarnasonar verkfræðings frá Reykjum í Mosfellsveit afhentu safninu á síðasta ári og áður hefur verið sagt frá hér á síðunni, voru mikilvæg gögn frá fyrstu árum súgþurrkunarinnar, en tækninni kynntist Jóhannes í bútækninámi sínu vestanhafs í byrjun fimmta áratugar síðustu aldar.

 

Sl. sumar kom svo Karl Ágústsson í Reykjavík með ýmis gögn úr búi föður síns, Ágústs Jónssonar rafvirkjameistara, en hann vann mjög að útbreiðslu súgþurrkunar á sínum tíma og að ráðgjöf um gerð hennar og notkun.  Í þessum gögnum voru m.a. leifar af súgþurrkunarlíkani, sem Ágúst mun hafa notað í kynningarstarfi sínu.

 

Með aðstoð Karls komumst við í samband við módelsmiðinn Skjöld Sigurðsson í Reykjavík sem í gær afhenti safninu líkan er hann hefur smíðað af gamla súgþurrkunarkerfinu á Giljum í mælikvarðanum 1:10. Í áðurnefndum gögnum frá Jóhannesi bónda var einmitt málsett smíðateikning af þvi gerð af Ágústi rafvirkjamestara, sem og skrifaðar leiðbeiningar hans um hina nýju tækni.

 

Gilja-kerfið var mjög dæmigert fyrir súgþurrkunarkerfi þeirrar tíðar. Meðfylgjandi mynd sýnir Skjöld við líkan sitt - hina mestu völundarsmíð.

 

Nú stendur útaf að smíða blásara-líkan og mótor- við kerfið sem þá verður fullbúið til sýnis. Samhliða þarf að taka saman þátt um sögu súgþurrkunarinnar hérlendis en föng til hennar eru að miklu leyti fyrirliggjandi.

 

Súgþurrkun heys var ein allra merkasta heyverkunarnýjungin á síðustu öld. Að tiltölu beitti engin nágrannaþjóð aðferðinni í þeim mæli sem Íslendingar gerðu.

 

Meira um súgþurrkun og sögu hennar síðar.