5. maí 2011

Áburði dreift úr jeppa

Þessi pistill fellur undir búætti um miðja síðustu öld. Hann varðar verk sem margir munu vinna næstu dagana. Hann varðar líka þau hlunnindi sem það eru að taka á móti gestum í Landbúnaðarsafni.

 

 

Þannig var að gestur einn greindi frá því hvernig hún upplifði áburðardreifingu á sínum bæ, þar sem nýkominn var jeppi.

 

Jeppi var mikil fjárfesting á þeirri tíð. Það reið því á að nýta hana sem mest og best. Hefst nú saga gestsins í endursögn heimsíðungs.

 

Jú, sagði heimildarkonan: Pabbi notaði jeppann til þess að dreifa áburði: Hann sat bara aftur í og dreifði áburðinum aftur úr jeppanum.

 

Þar sátum við krakkarnir. Mamma keyrði jeppann, en hún hafði ekki bílpróf.  

 

Þannig voru krakkarnir passaðir um leið og verkið var unnið - fjölskylduvænt verk og allir voru glaðir - líka grösin sem þarna fengu útlendan auðleystan áburð, sennilega mest Noregssaltpétur.

 

Stemmingin er myndgerð með heimsíðungskrotinu sem frásögninni fylgir.

 

Ef til vill glottum við að þessari hugdettu nú. Óvíst er þó hvort við höfum efni á því. Frásögnin er dæmi um það marga sem gerðist á mörkum hins gamla tíma og tæknibyltingar nútímans.

 

Þegar hin stóra saga er sögð er mikilvægt að halda til haga augnablikum breytinganna - þegar nýtt og framandi áhald kom til sögu. Sumt varð alsiða, annað aðeins tilraun sem síðan gleymdist - flestum. Þannig fór um þessa dreifingaraðferð.