9. maí 2011

Smár safngripur

Þriðjudaginn 6. nóvember 2007 kom hann Sigurjón Valdimarsson á Glitsstöðum í Norðurárdal með þennan grip sem gjöf til safnsins. Gripurinn fagnar 60 ára afmæli á þessu ári. Hann er ekki stór, 55 mm langur og leggurinn er svo sem 6,5 mm. Verðmæti gripsins stendur í öfugu hlutfalli við stærð hans.

 

Af þessum grip komu tæplega 180 til landsins árið 1949. Um það er lauk skiptu þeir hundruðum - fóru víst yfir eitt þúsund.

 

Í dag er heimsíðungi kunnugt um að sumir leita gripsins með logandi ljósi og mundu glaðir gefa töluvert fyrir að eignast einn slíkan.

 

Það eru nefnilega ekki allir jafnmiklir hirðumenn og hann Sigurjón á Glitsstöðum - mikill velvildarmaður Landbúnaðarsafns og fjölskylda hans öll.

 

Hvaða gripur er þetta og til hvers var hann notaður?