15. maí 2011

Þetta var "föler"

Gáta síðustu klausu hér á síðunni hefur alið af sér mörg svör og flest eru þau á einn veg: Þjóðin er nefnilega afar vel upplýst um gripi af þessu tagi. Heimsíðungur þakkar ykkur góðar tektir undir gátuna.

 

Þorri svaranna var réttur: Já, þetta er stillilykill frá honum Lúkasi sem lagði til rafkerfið í gráa Ferguson. Með lyklinum skyldi stillt kertabil og platínubil í aflvél bensín-Fergusonar. Flestum svarendum var nafnið "föler" tiltækast sem heiti áhaldsins, enda voru ekki nema fimm ár liðin frá því við kvöddum danska kónginn sem þjóðhöfðingja og þar til Ferguson tók fyrst við ríki á mörgum bæjum hérlendis. Eimdi því enn eftir af áhrifum konungstengdrar dönsku hérlendis.

 

Hver sá sem "föler" á er hvattur til þess að geyma hann undir gleri því fráleitt eru þeir margir eftir. Og svona í lok þessarar færslu getur heimsíðungur ekki leynt gleði sinni yfir því að Skagamenn skuli aftur vera farnir að hitta fótknöttinn með árangri sem áður fyrr meir var hið daglega brauð. Gulir og glaðir stefna þeir nú í Úrvalsdeild. Þeir hafa sýnilega fundið sinn "föler" og stillt gang sinn með honum ...