28. maí 2011

Gamlir ljáir

Verið er að sanka saman föngum til íslenskrar sláttusögu: sögunni um sláttuáhöldin orf og ljá og það sem slættinum sjálfum var tengdast. Búið er að kanna áhöld sem varðveist hafa á nokkrum söfnum, m.a. í Þjóðminjasafni, Skógasafni og Byggðasöfnum Borgfirðinga og Árnesinga. Vafalaust leynast einnig áhugaverð eintök sláttugripa í öðrum söfnum.

 

Til mun vera líka á bæjum þar sem 4-5 kynslóðir hafa setið hver fram af annarri að varðveist hafi t.d. ljáir frá fyrri tíð.

 

Heimsíðungur er sérstaklega á höttunum eftir einjárnungsljáum sem keyptir voru og notaðir á fyrri hluta 20. aldar.

 

Á árunum eftir 1925 var mikið flutt inn af sk Eylandsljáum sem smíðaðir voru í Noregi. Þeir eru auðþekktir á því að verksmiðjunafnið BRUSLETTO er þrykkt í þjó þeirra - legginn sem gengur upp í orfið. Við erum orðin vel sett með heimildir um þá, sem og góð eintök til geymslu og sýningar.

 

Ef þú veist um aðrar gerðir ljáa, sem gætu verið frá þessum tíma, væri heimsíðungur þakklátur fyrir ábendingar þar um. Margir þessara ljáa höfðu pappírsmerki sem máðust af við notkun og slit ljáanna. Þá er það merki "stansað" inn í þjóið sem stundum getur hjálpað.

 

Í gömlum skemmum hirðubænda kunna að leynast kippur gamalla og slitinna ljáspíkna, jafnvel gömul brýni líka ...

 

... þetta gæti verið afar forvitnilegt að heyra um. Það gæti fyllt betur í eyður ljáasögunnar og bætt í ljáasafnið sem við stefnum að því að koma upp.

 

Bestu þakkir

 

Bjarni Guðmundsson

Hvanneyri

GSM 894 6368