7. júní 2011

Iceland´s First Tractor School

Heimsíðungur er að leggja síðustu hönd á Nalla-bók. Við efnisöflun hefur hann notið aðstoðar margra, m.a. hans Alfs Agdler sem fer fyrir samtökum IHC-manna í Svíþjóð. Fyrir nokkru benti Álfur á grein sem kom í safnaðarblaði IHC-verksmiðjanna í mars 1931.

 

 

Blaðið heitir The Harvester World og er aðgengilegt á netinu. Skemmtileg grein, eins og nú skal greina:

Þegar traktorar tóku að ryðjast til landsins, 1929-1931, flestir frá IHC, var efnt til námskeiðs fyrir ökumenn þeirra, enda fáir sem þá kunnu nokkuð til vélameðferðar. 

 

Námskeiðið var haldið í Reykjavík og austur á Reykjum í Ölfusi. Sóttu það á 3. tug ungra manna víða að af landinu.

 

Svo þótti til um námskeiðið að frá því var sagt í mánaðarriti IHC í Chicago:.

 

Greinin heitir Iceland´s  First Tractor School – Fyrsti traktorskólinn á Íslandi!

 

Hún hefst á orðunum: „It promises well for the future; it may mean that a new chapter in the history and development of Iceland is about to be written“ – Það lofar góðu fyrir framtíðina; ef til vill er verið að skrifa nýjan kafla í sögu og þróun Íslands. 

 

Koma traktoranna frá International Harvester telur greinarhöfundur að geti boðað sókn í þróun landbúnaðarins með ræktun „the great coastal walley areas of hummocky virgin soil, where for centuries only sheep and cattle have grazed“...

 

... – hins mikla, dalverpta og þýfða láglendis frumjarðvegs sem í aldanna rás hefur aðeins verið beitiland sauðfjár og nautgripa.

 

Jú, vissulega varð þetta fyrsta traktornámskeið á Íslandi mikilvægt mark nýrra tíma.

 

Meira um þetta efni í væntanlegri bók, sem heita mun Alltaf er Farmall fremstur.