15. júní 2011

Sumarstarfið hafið

Sumarið er að koma í Landbúnaðarsafni. Nú er safnið opið kl. 12-17 alla daga og raunar ögn lengur því Ullarselið, sem opið er til kl. 18 alla daga hjálpar okkur við afgreiðsluna enda í sama húsi eins og margir vita.

 

Gestakomur eru að aukast. Í vetur og vor hefur verið töluvert um hópa sem komið hafa í safnið: starfmannahópar, nemendahópar, félagsstarf aldraðra og ýmsir aðrir áhugasamir um viðfangsefni safnsins.

 

Í fyrradag kom t.d. hópur bandarískra gesta sem fékk sérstakan fyrirlestur um íslenskan landbúnað. Von er á fleiri slíkum hópum í sumar. Það er Guðrún Bjarnadóttir kennari  við LbhÍ sem þá fræðslu annast.

 

Venju samkvæmt vex aðsókn fjölskyldna og einstakra gesta þegar kemur fram um miðjan júní.

 

Gert er ráð fyrir góðu sumri þótt ekki hafi andað hlýlega síðustu vikurnar.  Á næstu dögum munum við greina frá einstökum atburðum á vegum safnsins í sumar.

 

Við notum hins vegar tækifærið og minnum á dag sauðfjárræktarinnar sem verður á Hvanneyri föstudaginn 24. júní n.k. - sjá "nánar í götuauglýsingum" eins og sagt var ...