17. júní 2011

Jón Sigurðsson - 200 ár - Búnaðarbætur

Runnin er upp 17. júní 2011. 200 ár liðin frá fæðingu barns á Hrafnseyri. Það fæddust fleiri börn þann dag. Hrafnseyrarbarnið varð í forystu, hin tóku þátt hvert með sínum hætti - um þau vita fáir nú.

Hrafnseyrarbarnið hóf að berjast fyrir umbótum. Beitti penna sínum í stað þess að ríða um í brynju með brugðið sverð. Skrifaði m.a. Litla varníngsbók, um það hvernig þjóðin gætiu nýtt auð sinn með betri hætti en fyrr, nýtt kunnáttu, nýtt markað, nýtt betur það sem landið gaf...

 

 

Okkur Landbúnaðarsafnsmenn dreymir um að rifja upp hugmyndir hans, sem kallaður var forseti, um það hvernig bæta mætti og efla landbúnað. Varníngsbókin er skrá um þær hugmyndir.

 

Margar þeirra urðu að veruleika: Bættu hag þjóðarinnar. Skiluðu peningum í vaxandi viðskiptaumhverfi.

 

Forsetinn lagði líka lið þeim sem vildu innleiða nýja verktækni við búskap: Guðmundi jarðræktarmanni á Fitjum í Skorradal, Sveini búfræðing og fyrsta skólastjóra á Hvanneyri. Líka Torfa Bjarnasyni í Ólafsdal, en þeir áttu víst ekki skap saman....

 

Við ætlum að minnast þessa á Íslenskum safnadegi sunnudaginn 10. júlí nk. Þá hyggjumst við draga fram hugmyndir Jóns forseta til umbóta í búskap landsmanna. Sýna m.a. hver þráðurinn er til dagsins í dag.

 

Kynnum það betur á næstunni.

 

Þjóðhátíðarkveðjur til allra lesenda síðunnar. Sjálfstæðisbarátta er háð á hverjum degi, já í hverju verki sem við vinnum.

,

Jón Sigurðsson er góður holdgervingur baráttunnar en raunar liggja áhöld hennar í okkar eigin höndum, okkar eigin verkum, þar sem við hvorki getum treyst á aðra né forna frægð látinna heiðursmanna. Í hana sækjum við hins vegar þrótt og viðmiðun... Það er erindi Jóns Sigurðssonar við okkur í dag. 

 

Og barátta Jóns forseta hefði komið fyrir lítið ef nafnlausir jafnaldrar

hans hefðu ekki tekið undir og holdgert hugmyndir hans. Munum það.

 

Íslandi allt.