25. júní 2011

Hörður frá Holti Sigurgrímsson

Fyrr í þessum mánuði kvaddi einn af ágætum hollvinum Landbúnaðarsafns, hann Hörður Sigurgrímsson, bóndi í Holti í Stokkseyrarhreppi.

 

Fyrir löngu hóf Hörður að gauka að safninu ýmu efni sem varðar tækniþróun landbúnaðarins á seinni hluta síðustu aldar.

 

Hörður var mjög áhugasamur um allt er laut að betri landbúnaði, var enda sjálfur meðal bestu bænda landsins.

 

Hann dvaldi ungur um hríð fyrir vestan haf og kynntist þar ýmsum nýjungum á sviði landbúnaðar.

 

Safninu færði Hörður og fjölskylda hans ýmis gögn úr verunni vestanhafs, gögn um tækni er síðar barst til Íslands, svo sem bækur, myndir og bæklinga.

 

Ljósmyndir úr eigin búskap sendi Hörður okkur, sem og stuttar minnisgreinar. Ein þeirra birtist í bókinni ... og svo kom Ferguson.

 

Síðasta "myndnótan" sem Hörður sendi Landbúnaðarsafni var dagsett í Holti 22. september sl.

 

Landbúnaðarsafn þakkar Herði áhuga, vinsemd og liðveislu, og sendir fjölskyldu hans samúðarkveðju.