26. júní 2011

Farmal-fagnaðurinn 16. júlí nálgast

Nú nálgast laugardagurinn 16. júlí en þá hyggjumst við í samvinnu við góða menn efna til Farmal-fagnaðar á Hvanneyri í tilefni af ári Nallans.  

 

Til Farmal-fagnaðarins eru allir áhugamenn velkomnir með forn-dráttarvélar sínar að Hvanneyri hvaða gerðar sem eru.

 

Eigendur Farmal-véla og annarra forn-dráttarvéla frá verksmiðjum International Harvester eru sérstaklega velkomnir með gripi sína. 

 

Fornvélarnar verða sýndar og farið í stuttan skrautakstur í fögru staðarumhverfinu. 

 

Valdar verða og heiðraðar fallegustu Farmal-forndráttarvélarnar, líkt og gert var á Ferguson-degi safnsins sumarið 2009.  Helsta mottó fagnaðarins á að vera Gömul vél er gaman manns.  

 

Í sérstökum dagskrárlið mun Ólafur á Þorvaldseyri bjóða dísel-Nöllum eldsneyti sem hann hefur ræktað á eigin akri og sem hann mun vinna og kynna á staðnum með sínum mönnum.

 

Ullarselið verður á sínum stað og fleira verður í boði. 

 

Þá standa vonir til að á Farmal-fagnaðinum  verði hægt að kynna nýútkomna bók um hinar merku dráttarvélar frá IHC: Alltaf er Farmall fremstur. Höfundur hennar er Bjarni Guðmundsson en útgefandinn Uppheimar hf.

 

Dagskrá Farmal-fagnaðarins verður nánar kynnt bráðlega.

 

Þegar hafa nokkrir aðilar boðað komu sína til Farmal-fagnaðarins með Rauðkur sínar.

 

Tekið skal fram að við höfum möguleika á að geyma sýningarvélar aðkomumanna í læstum vélasal kjósi einhverjir að koma með vélar sínar daginn á undan - eða geyma þær á Hvanneyri eina tvær nætur.

 

Nánari upplýsingar um Farmal-fagnaðinn veitir Bjarni Guðmundsson, s. 844 7740.