27. júní 2011

Ljáir - enn

Fyrir nokkru greindi heimsíðungur frá leit sinni að gömlum ljáum, sjá færsluna http://www.landbunadarsafn.is/frettir/nr/116947/ hér fyrr á síðunni.

Örlítil viðbrögð hafa orðið við erindinu og er a.m.k. einn forvitnilegur ljár á leiðinni svo öruggt sé.

 

Nú er erindið bara áréttað í tilefni þess að þessa dagana eru æ fleiri bændur að "bera út" eins og sagt var.

 

Vissulega horfir ekki bjarglega með slátt og heyskap í öllum sveitum, en heimsíðungur hefur tröllatrú á því að með næsta tungli breyti um og þá til hins betra.

 

Það kom hins vegar gestur í safnið á dögunum sem spurði heimsíðung hvar fá mætti ljái keypta nú til dags; sig vantaði ljá til þess að slá hluta af sumarbústaðarlóð sinni. Hann kvaðst nefnilega ekki kæra sig um hávaða og fnyk vélorfs.

 

Fátt varð um svör, en heimsíðungur nefndi Ellingsen og Brynju sem hugsanlega staði ... Lesendur vita eflaust betur.  Svo eru kostulegir ljáir og enn kostulegri orf boðin á Netinu - áhöld sem byggð eru á aldagamalli reynslu, t.d. í Austurríki, Noregi, Ameríku o.v.