7. júlí 2011

Hvað sagði Jón forseti um landbúskapinn?

Í Landbúnaðarsafni Íslands á Hvanneyri verður kl. 15 á sunnudaginn kemur opnuð dálítil sýning sem dregur fram nokkrar af hugmyndum Jóns Sigurðssonar forseta um umbætur í landbúnaði. Um þær skrifaði hann m.a. í Lítilli varníngsbók sinni – einstöku riti, sé ritunartími þess hafður íhuga, árið 1861.

 

Hér eru aðeins birt fáein dæmi um hvatningu forsetans en nánar verður um efnið fjallað, m.a. í stuttur erindi á sunnudaginn kemur:

Hver tími hefir sínar þarfir og sitt ætlunarverk ... 

 

Fimm og sex vinnumenn og eins margar vinnukonur standa allt sumarið á höfði í þúfum og grjóti, til að heyja fyrir sex kúm, en að láta  þetta fólk taka skorpu í að bæta jörðina og gjöra hana frjósamari og auðunnari, þar um heyrist lítil fregn; og þó enginn geti neitað, að einn vinnumaður og ein vinnukona gæti fengið meira hey á hálfum mánuði, ef jörðin væri slétt og ræktuð, en tólf hjú heyja nú allt sumarið, þá er þessu enginn gaumur gefinn. Þó er þetta grundvöllurinn fyrir allri búsæld og öllum framförum á landinu ...

 

Með hinu almenna verzlunarfrelsi er oss opnað hið fyrsta stig til sjálfsforræðis ...

 

Hin hollasta og notasælasta framför er því sú, sem landið sjálft leiðir til og landsmenn geta áorkað sér sjálfir ...

 

Þessir menn eru oss samdóma í því, að á Íslandi sé nægar uppsprettur auðs og hagsælda í duglegra manna höndum ...  

 

Jörðin verður þá að eins fögur og nytsöm eign, þegar hún verður gjörð sem hentugust til að gefa af sér nauðsynjar manna ...  

 

Vér getum því með réttu sagt, að eiginlega sé auðurinn nægtir af þeim hlutum, sem horfa mönnum til gagns eða nauðsynja ...  

 

Vér eigum beint við náttúruna sjálfa, og vor framför er fyrst og fremst í því fólgin, að skynja fullkomlega hver hagur oss er veittur, og hvers vért eigum kosti, og að leita allra bragða til að ná þeim gæðum og nota þau, sem náttúran leggur oss í hendur...

 

Það er því auðsætt, að land vort og gæði þess eru einmitt sköpuð handa þeim, sem ekki eru komnir lángt í mentun og kunnáttu, en hafa alla þá andlega og líkamlega kosti til að bera, sem þarf til að taka sér fram ...  

 

... menn sjá altaf betur og betur hver nauðsyn er og hvert gagn að hafa verzlunina sem frjálsasta  ...  

 

Búskapurinn og aðdrættir af landi og sjó eru undirrót alls þess afla, sem vér köllum varníng, að því leyti sem næst liggur fyrir hjá oss að búa hann til eða hafa hann á boðstólum... 

 

Og svo fjallaði Jón forseti um einstakar afurðir; skrifaði m.a.:

 

NAUTPENÍNGUR

                            Í þeim löndum, sem hafa engjaland og haglendi, er kúabúið ekki einúngis aðalbústofn alþýðunnar, heldur er og einnig aðal-varníngurinn tekinn af þessum stofni... 

 

                            Smjör er á Íslandi sjálfu svo útgengilegt, að það mundi verða selt ómælt ef það væri þar eptir falt; til annara landa væri það einhver hinn bezti varningur, ef það væri vel verkað ...

 

HESTAR

                                      Menn hugsuðu lengi frameptir, að íslenzkir hesta væri ekki færir til að draga plóg, og var það talin ein mótbáran móti jarðyrkju á Íslandi; en nú hafa menn sýnt til þess mörg dæmi víða, að þeir eru vel færir til plógs, þegar plógurinn er lagaður við þeirra hæfi ...

 

SAUÐFÉNAÐUR                                       

                                      ... hinn fyrsti skilmáli fyrir sauðpeníngsrækt er, eins og að sínu leyti við kúaræktina, að maður ætli sér aldrei meira en hann getur vel haldið, til að vera ætíð byrgur og geta farið vel með skepnur sínar ...

 

 ULL                        

                              Einn skildíngur af hverju ullarpundi er hérumbil það sem latínuskólinn kostar, og ef menn bættu ullarvarníng landsins svo mikið, að hann yrði 4 skildíngum meira virði  

 

SAUÐAKJÖT            

                                      Enginn getur efazt um, að íslenzkt sauðakjöt hljóti að vera í sjálfu sér svo gott sem auðakjöt getur bezt orðið, ef rétt er með það farið; það hlýtur því að vera handvömm ein, og meðferðinni að kenna, að það gengur ekki út nema til fæðu handa tugthúslimum eða þeim, sem fátæktar vegna gángast fyrir því, að það er með vægara verði en annað kjöt, og þetta kemur aptur þar af, að það er álitið lakara ...  

 

FJALLANYTJAR: FJALLAGRÖS o.fl.         

                                      ... menn eiga þar hjá sér jurtir, sem eru annaðhvort  hinar sömu sem menn kaupa frá öðrum löndum í gyltum bréfum, stundum myglaðar og fúnar, eða þær eru aðrar og öllu skárri en hinar. Það eru þessvegna í raun og veru engar öfgar, þó jurtir þessar væri fyrst og fremst almennt hagnýttar, og þarnæst gæti orðið að varníngi, einsog jurtir annarstaðar, því ekki er til dæmis að taka teið annað en blöð af jurt, sem eru orðin að verzlunarvöru og seld árlega fyrir margar miljónir dala...