10. júlí 2011

Sólríkur safnadagur á Hvanneyri

Í al-sælu hægrar suðvestanáttar undir borgfirskum bláhimni blakti íslenski fáninn á Kirkjuhólnum og varð vitni að heimsókn nær tvö hundruð manns að Hvanneyri í dag - á Íslenska safnadeginum. Teljarinn, sem þó varð stundum frá að hverfa, eða sinna öðru, taldi 177 gesti um dyr Landbúnaðarsafns.

 

Ragnhildur Helga í Ausu leiddi vænan hóp í fræðslugöngu um Borgfirskar flæðiengjar og hlaut lof fyrir einstaklega vandaða leiðsögn. Í upphafi göngunnar var kynnt 3-spjalda fræðsluefni við anddyri væntanlegs framtíðarhúsnæðis Landbúnaðarsafns (við vesturdyr Halldórsfjóss). Munu gestir staðarins geta notið þess áfram næstu vikur.

 

 

Kynnt var ný sýning um Jón Sigurðsson og landbúnaðinn í stuttu erindi Bjarna Guðmundssonar. Sýningin er sett upp í samráði við Afmælisnefnd Jóns Sigurðssonar (www.jonsigurdsson.is ) og ávarpaði framkvæmdastjóri hennar, Björn G. Björnsson, samkomuna og flutti kveðjur nefndarinnar.

 

Gestir skoðuðu Landbúnaðarsafnið, og urðu m.a vitni að komu elstu IHC-beltavélar landsins á safnhlaðið, T20 heitir hún, líklega 1939 eða eldri. Hún boðar Farmal-dag nk. laugardag.

 

Safninu bárust góðir gripir, svo sem jafnan hefur gerst á Safnadegi, og sögur voru sagðar af mönnum, vélum og verkháttum. Maður var manns gaman.

 

Margir kíktu í Ullarselið, sem býður fínastra handverk sem finnanlegt er á Íslandi.

 

Síðast en ekki síst héldu þær Dísa, Sólrún Halla og Þórunn Edda uppi vöfflustemningu í Gömlu skemmunni við bæjarlækinn á Hvanneyri. Afar vel fór um þá mörgu, sem þangað lögðu leið sína til þess að fá sér vöfflukaffi.

 

Dagurinn varð hinn ánægjulegasti og vill Landbúnaðarsafn þakka öllum sem kíktu við á Hvanneyri. Líka þeim er hjálpuðu til við að gera Safnadaginn svo vel lukkaðan sem raun varð.