12. júlí 2011

Farmal-fagnaðurinn á Hvanneyri nk. laugardag

Landbúnaðarsafn Íslands á Hvanneyri efnir til Farmal-fagnaðar á Hvanneyri laugardaginn 16. júlí nk.  Tilefnið er að heiðra Farmalinn og nánustu ættingja hans, Nallana, af ýmsum gerðum.

 

 

Farmalarnir mynduðu fyrstu bylgju heimilisdráttarvéla hérlendis – á árunum 1945-1950 og teljast því tímamótavélar í sveitum landsins.

 

Tilgangur fagnaðarins er að kynna mikilvæga þætti úr tæknisögu landbúnaðarins. Líka að skapa forn-dráttarvélamönnum vettvang til þess að sýna dráttarvélar sínar. Síðast en ekki síst er tilgangurinn að njóta stundarinnar. Helsta mottó fagnaðarins verður Gömul vél er gaman manns.  

 

Til Farmal-fagnaðarins eru allir áhugamenn velkomnir með forn-dráttarvélar sínar að Hvanneyri hvaða gerðar sem eru. Eigendur Farmal-véla og annarra forn-dráttarvéla frá verksmiðjum International Harvester eru sérstaklega velkomnir með gripi sína. 

 

Fornvélarnar verða sýndar, sleginn þrælasláttur með nokkrum þeirra og farið í stuttan skrautakstur í fögru staðarumhverfinu. Valdar verða og heiðraðar fallegustu Farmal-forndráttarvélarnar.

 

Kynnt verður bók um þessar merku dráttarvélar sem kemur þennan dag: Alltaf er Farmall fremstur heitir hún. Höfundur hennar er Bjarni Guðmundsson en útgefandinn Uppheimar hf.

 

Sérstakur gestur á Farmal-fagnaði verður Ólafur Eggertsson bóndi á Þorvaldseyri. Með samstarfsmönnum sínum mun hann kynnadráttarvéla-eldsneyti af íslenskum akri– ræktun á repju og framleiðslu lífdísel-eldsneytis úr henni. Farmal-dráttarvél verður reynd á olíu framleiddri á staðnum.

 

Ullarselið verður á sínum stað og Guðrún Bjarnadóttir mun kynna jurtalitun sína, sem vakið hefur mikla athygli.

 

Farmal-vöfflukaffi Landbúnaðarsafnsins verður í Skemmunni - með rjóma og rabarbarasultu og tilheyrandi.