18. júlí 2011

Færðu safninu FORD-dráttarvél

Á Farmal-fagnaði sl. laugardag færðu bændurnir á Steindórsstöðum, Þórarinn Skúlason og Guðfinna Guðnadóttir, safninu góða gjöf. Það er Ford 3000-dráttarvél af árgerð 1975.  

 

Þórarinn bóndi hafði komið akandi á dráttarvélinni, sem er í fullkomnu standi þótt snúist hafi í tíu þúsund stundir; notuð allt til þessa.  Um hirðuna þarf ekki að fara mörgum orðum því  óvíða getur betri vélahirðu en á Steindórsstöðum í Reykholtsdal.

 

Á myndinni afhendir Steindórsstaðafólk ábyrgðarmanni safnsins dráttarvélina, er sér á að baki þeim.

 

Dráttarvél þessi er verðugur fulltrúi nýbylgju í hönnun dráttarvéla frá sjöunda og áttunda áratugnum. Þá voru vönduð öryggishús að koma til sögu, svo vinna mátti með vélunum í hvaða veðri sem var - ekki aðeins traustar grindur.

 

Með sínum hætti er Steindórsstaða því fulltrúi upphafsára nútíma vinnuvéla. Mun hún fá verðugan sess í safninu.

 

Með Steindórsstaðavélinni markast 54 ára aldursbil ford-gerðra dráttarvéla í safninu, allt frá Fordson F frá 1919, sem fyrir var þar, til Ford 3000 ársins 1975.

 

Ford 3000 var boðin á árunum 1965-1975, hérlendis seld af Þór hf.

 

Hvítbláar voru vélarnar og minntu þannig á Hvítbláinn, fána ungmennafélaganna!

 

Í ávarpi sínu greindi Þórarinn frá kaupum vélarinnar á sínum tíma og fer sú saga hér á eftir:

 

„Árið 1975 hugðust þeir frændur Einar Pálsson á Steindórsstöðum og Sigurður Geirsson á Vilmundarstöðum festa kaup á heybindivél í félagi. Fór Einar til Reykjavíkur fyrripart vetrar til að festa sér vél. Fékk hann Þorstein bróður sinn, sem var búsettur í Reykjavík og rak þar bílaklæðningaverkstæði, til að lóðsa sig um borgina.

 

                         Þar sem þeir voru á gangi í Ármúlanum á leið í mat í Múlakaffi lá leið þeirra fram hjá Þór hf. Þar stóð úti í glugga þessi líka fína Ford 3000 dráttarvél. Einar staldraði við og sagði við Steina: „Þennan langar mig að kaupa, ég á bara ekki fyrir honum.“ Steini svaraði um hæl: „Ég lána þér bara.“  Fóru þeir síðan inn og sömdu um kaup á vélinni. Fékkst hún á sýningarverði með þeim skilyrðum að hún fengi að standa í glugganum fram á vor. Þegar kom að greiðslu dró Steini veskið úr rassvasanum og taldi traktorsverðið í seðlum á borðið.

 

                         Um vorið sótti síðan Einar hvort tveggja, Fordinn og bindivélina, og keyrði á Fordinum rakleitt heim að Steindórsstöðum.“