19. júlí 2011

Konurnar á bak við Safnakaffið

Á meðan hundruðir gesta nutu Farmal-blíðunnar á laugardaginn var, þar sem sólin speglaði sig í fagurgljáandi forndráttarvélum stóð hópur kvenna og tilreiddi rabarbaragraut og vöfflukaffi fyrir þá er vildu.

 

Veitingarnar báru þær fram í Skemmunni, safnaðarheimilinu nýja á Hvanneyri. Skemman er sögufrægt elsta húsið sem stendur á Hvanneyri, sunnanvert í Kirkjuhólnum þar sem stutt er í Bæjarlækinn, í umhverfi sem nú er vafið gróðri af ýmsu slagi.

 

Það er ekki ofsagt að þær hafi staðið sveittar frá kl. 12 og fram yfir kl. 17 yfir vöfflugerð, kaffibruggun og afgreiðslu, því margir vildu fá sér hressingu.

 

Framan af voru þær þrjár en síðan bættist ein við þegar Skemman fylltist af gestum. Ógetið er þá tengds sendimanns er brá við hart er mest lá við og sótti rjóma í kaupstað þegar stefni í þurrð vegna mikillar eftirspurnar.

 

Myndin sýnir þær sem í verkunum stóðu  (f.v.): Þórunn Edda Bjarnadóttir, Ragnhildur Helga Jónsdóttir, Ásdís B. Geirdal og Sigríður Jóhannesdóttir.

 

Í liðinu ríkti hinn sanni ungmennafélagsandi, sem um sumt minnti gamlan heimsíðunginn á Húsafellsmóti í dentíð.  Sem dæmi um hve líflegt var tjáði Sirrý (Sigríður Jóhannesdóttir) heimsíðungi að hún hefði hugsað sér að skrá fjölda vafflna, sem hún afgreiddi; þegar hún var komin upp í 11 kvaðst hún hafa ruglast í ríminu og steinhætt talningu. Lætur hún sér þó ekki allt fyrir brjósti brenna sem framkvæmdastjóri Búnaðarsamtaka Vesturlands að aðalstarfi...

 

Landbúnaðarsafnið þakkar vöfflukonunum kærlega fyrir mikla vinnu þeirra á annadegi, og þá sérstaklega í ljósi þess að ágóðnn af starfi sínu létu þær renna til safnsins.