21. júlí 2011

Fróðleikur frá safngestum

Gestagangur hefur verið drjúgur í Landbúnaðarsafni það sem af er júlí. Eru gestir mánaðarins orðnir nær 1400 þegar þetta er skrifað. Jafnan berst fróðleikur með þeim, einkum hinum eldri. Þeir yngri spyrja hins vegar stundum spurninga sem opna manni nýja sýn á mál.  Þess vegna er ósköp gaman að taka á móti gestum í safninu.

 

 

Sem dæmi má heimsíðungur ef til vill nefna heimsókn hóps aldinna Hrunamanna á dögunum. Ófátt höfðu þeir að segja um gripi safnsins og fróðleik tengdan þeim. Þar voru m.a. menn sem höfðu tekið þátt í kappslætti.

 

Þar í hópi voru líka tveir jafnaldrar sem smíðað höfðu sér orf þegar þeir voru í barnaskóla, en það var hluti smíðanámsins, að sögn þeirra. Sýnir það hve slátturinn var þýðingarmikill verkþáttur. Hefur þú heyrt um að orfasmíði hafi verið hluti smíðakennslu annars staðar

 

Í gær kom svo í safnið maður sem verið hafði vélamaður hjá Sigfúsi Öfjörð, þeim þekkta frumkvöðli, véla- og ræktunarmanni á Lækjamóti í Flóa. Sigfús kom mjög við sögu fyrstu ræktunarýtunnar, svo sem sagt er frá í bókinni Alltaf er Farmall fremstur sem kom út á dögunum.

 

Sigfús reyndi með góðum árangri þá aðferð við þúfnasléttun deiglendis að fara yfir það með óskertu diskaherfi vel þyngdu og rista það þannig en aka síðan yfir með mjög þungan valta aftan í jarðýtu.

 

Landið sléttaðist án þess að grasrót raskaðist svo neinu næmi.

 

Og þannig varð landið vélfært. Árlegur sláttur sá síðan til þess að halda aftur af þúfunum, sem alltaf höfðu hneigingu til þess að myndast aftur. Sláttuvélin skóf nefnilega ofan af þúfnakollunum.

 

Myndin, sem hér fylgir, er af Sigfúsi Öfjörð, fengin úr merkismannamyndasafni Páls Lýðssonar í Litlu Sandvík.