19. ágúst 2011

Sniðill

Varðandi síðustu fregn - um kolagerðina - eru ekki öll kurl komin til grafar enn:

 

Þannig var að um miðjan júlí kom velgjörðarmaður safnsins, Eggert Ólafsson frá Kvíum í Þverárhlíð, færandi hendi. Hann færði  safninu að gjöf sniðil, fornan og haganlega gerðan, svo sem meðfylgjandi mynd ber með sér.

 

Sniðill var eitt þeirra verkfæra sem kolagerðarmenn höfðu í höndum sér. Lesum hluta lýsingar Kristleifs Þorsteinssonar frá Stórakroppi á kolagerðinni:

 

Liðugast gekk verkið, er þrír menn unnu saman. Tók einn upp ... Annar hafði sniðilinn og kvistaði hið upptekna hrís. Hélt hann um legg hríslunnar, sem næst stofni, með vinstri hendi, hjó svo ótt og títt, þar til allt fínasta brum var afhöggvið. Því næst kastaði hann hinni kvistuðu hríslu og seilist til hinnar næstu með sniðilkróknum og kippir henni að sér ... Þriðji maðurinn tekur afhöggið og hina biturlegu kurlöxi og tekur að kurla timbrið ... (Úr byggðum Borgarfjarðar II, bls. 27-28).

 

Eggert taldi að sniðillinn, sem kemur frá Kvíum, væri frá því um fyrri aldamót, ef til vill eldri. Hugsanlega er áhaldið smíðað við borgfirsk kol úr borgfirskri björk, af borgfirskum eldsmið.

 

Þá vantar oss bara góða og gamla kurlöxi, því brýnið er til. Er oss þá ekkert að vanbúnaði að hefja aðra tilraun til kolagerðar, sbr. síðustu fregn.

 

Og í lokin getur heimsíðungur ekki á sér setið að kætast yfir því að knattleiksflokkurinn af Skipaskaga hefur aftur komist á þann stað sem landslög gerðu eiginlega ráð fyrir að hann væri jafnan á.

 

Þeir gulu og glöðu hafa sem sagt verið iðnir við kolann, urðu ekki örkola (=úrkula vonar), náðu flestum kurlum til grafar og hömruðu járnið á meðan það enn var heitt ...