26. ágúst 2011

Brýnt um brýni - Indian Pond

Landbúnaðarsafn á víða hauka í hornum. Einn slíkur kom í hópi félaga sinna á dögunum. Hann hafði þá um töluverða hríð haldið hlífiskildi yfir hálfum kassa af ljábrýnum, sem hann hafði jafnlengi ætlað safninu.

 

Myndin, sem hér fylgir, sýnir brýnakassann. Í gegnum húsakaup og ýmsan veraldarinnar velting hafði kassinn með félögum sínum 4 eða 5 alltaf sloppið við að verða hent, uns þessi haukur safnsins barg honum.

 

Rótgróin bændaverslun hafði lagt upp sína laupa, auk þess sem tíminn hafði hlaupið frá brýnunum: Bændur voru farnir að slá með öðrum áhöldum en þeim sem hvetja átti með brýnum.

 

Indian Pond brýni voru vel þekkt á framanverðri 20. öld, á seinni helft bakkaljáatímabilsins (Torfa-ljáanna). Með Eylandsljáunum komu víst aðrar gerðir, m.a. tvískiptar.

 

Gamalt fólk kannast við þessi brýni, steinhlunka töluverða, sem munu hafa verið sagaðir út úr steinbjörgum vestur í Bandaríkjunum, m.a. í Vermont, ef heimsíðungur fer ekki með rugl.

 

Til Íslands var flutt ódýrasta gerðin af India Pond-brýnum, skv. einfaldri rannsókn heimsíðungs, sögð vera No 2, og hafði auðkennið Red End - enda málað með rauðu í annan enda brýnisins.

 

Brýnunum var haganlega raðað í vel merkta trékassa, sjá mynd, og spónum  troðið með til þess að verja þau. Heimsíðungur hefur ekki lagt í að telja brýnin í kassanum til þess að raska ekki hinni upphaflegur röðun brýnanna í hann: Raunar mundi það líkjast fornleifauppgreftri.  Kassinn er vel hálfur af brýnum.

 

Þannig er enn að safnast föng til þerrar sláttusögu sem heimsíðung dreymir um að ná saman, bæði til bókar, en líka til kynningar í Landbúnaðarsafninu, því eiginlega var slátturinn ásamt áratoginu sá verkþáttur sem hvað mikilvægastur var áður en við komumst í olíuna ódýru hér undir fótum okkar.

 

Safnið kann brýna-hirðinum miklar þakkir fyrir hugulsemina, og brýnir jafnframt aðra til þess að leggja sláttusögunni lið.

 

Það er okkur brýnt.

 

Njótum svo síðustu ágúst-daganna þetta sumarið.